Nýr leikur frá Gogogic á leiðinni

Leikurin Godsrule er lauslega byggður á norrænum goðsögnum.
Leikurin Godsrule er lauslega byggður á norrænum goðsögnum. Skjáskot úr leik Gogogic

Leikjafyrirtækið Gogogic kynnti væntanlegan tölvuleik sinn, Godsrule, fyrir fjölmörgum dreifingar- og samstarfsaðilum á stærstu tölvuleikjaráðstefnu heims, E3 (Electronic Entertainment Expo), í Los Angeles í síðustu viku.

Um er að ræða fjölspilunarleik fyrir vafra og spjaldtölvur þar sem sögusviðið er ævintýraheimur sem byggir lauslega á norrænum goðsögnum.

Svokallaður RTS (Realtime Strategy) þáttur leiksins þykir nýstárlegur og að auki er það nýlunda að spilarar geti keppt við hvorn annan óháð því hvort þeir skrá sig inn í gegn um hefbundna tölvu eða spjaldtölvu, segir í tilkynningu.

Framkvæmdastjóri Gogogic segir félagið eiga í viðræðum við yfir 30 mismunandi aðila sem hafa áhuga á að koma að dreifingu leiksins með einhverjum hætti. Í þessum hópi eru aðilar sem eru eflaust öllum kunnir og það sé ljóst að Godsrule hafi vakið mikla lukku í Los Angeles.

Sérstaklega leitað til íslenskra spilara

Gogogic ætlar sér að leita sérstaklega til íslenskra spilara á næstunni til þess að aðstoða við prófanir á leiknum og sýna áhugasömum aðilum fram á að íslenski markaðurinn styðji vel við íslenska leiki. Þeir sem hafa áhuga á að leggja félaginu lið geta skráð sig hér.

Um Gogogig

Gogogic hefur verið starfandi frá 2006 og hefur sent frá sér umtalsverðan fjölda leikja á undanförnum árum. Þekktustu leikir félagsins eru Facebook leikurinn Vikings of Thule, sem kom út 2009 og var spilaður af 250 þúsund manns mánaðarlega þegar mest lét, og Tiny Places, sem var dreift á iPhone og iPad af Big Fish Games á þessu ári en nokkur hundruð þúsund manns hafa hlaðið niður þeim leik.

Godsrule er fjölspilunarleikur fyrir vafra og spjaldtölvur.
Godsrule er fjölspilunarleikur fyrir vafra og spjaldtölvur. Skjáskot úr leik Gogogic
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert