Eldgosið hafði líka jákvæð áhrif

Eyjafjallajökull í ham.
Eyjafjallajökull í ham. Ragnar Axelsson

Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 hafði ýmis áhrif, til dæmis urðu stórfelldar raskanir á flugumferð vegna þess. Önnur og talsvert jákvæðari áhrif urðu á lífríkið í Norður-Atlantshafi, en breskir vísindamenn hafa nú komist að því að askan hafði jákvæð áhrif á vöxt svifdýra og svifjurta í hafinu.

Askan úr eldgosinu dreifðist víða, meðal annars í Norður-Atlantshafið. Vísindamennirnir rannsökuðu svifið á meðan á eldgosinu stóð og aftur eftir að því var lokið.

Einn þeirra,  Eric Achterberg, sem starfar hjá Sjávarrannsóknarstofnuninni í Southampton í Bretlandi, segir þetta hafa verið einstakt tækifæri til að rannsaka áhrif ösku á lífríki sjávar.

„Þetta tækifæri, að taka sýni á meðan á eldgosinu stóð og aftur nokkrum mánuðum síðar, veitti okkur einstaka innsýn í áhrif öskudreifingar á lífríkið á Íslandsgrunni,“ segir Achterberg í samtali við BBC.

Hann segir að askan hafi leyst úr læðingi járn, sem jók vöxt svifsins um 15-20%. Það hafi þó verið tímabundið, þar sem vextinum var hamlað af takmörkuðu magni niturs, sem er nauðsynlegt til þess að svifið fái að vaxa.

Svifið gegnir veigamiklu hlutverki í fæðukeðju hafsins, en það dregur líka í sig koltvísýring úr andrúmsloftinu og gegnir því stóru hlutverki varðandi gróðurhúsaáhrifin.

mbl.is

Bloggað um fréttina