Hafa áhyggjur af Google Glass

Google Glass hefur valdið bandarískum þingmönnum áhyggjum.
Google Glass hefur valdið bandarískum þingmönnum áhyggjum. wikipedia

Átta þingmenn úr báðum flokkum í fulltrúadeild bandaríska þingsins hafa sent bréf til Google þar sem þeir spyrja fyrirtækið út í þau persónuverndarúrræði sem hafi verið stigin við þróunina á Google Glass, gleraugum sem geta tengt notendur við internetið öllum stundum. 

Í bréfinu eru lagðar fram átta spurningar fyrir Google um tækið og þau gögn sem það muni safna í notkun. Hafa þingmennirnir sérstakar áhyggjur af því að tækið gæti gengið á réttindi Bandaríkjamanna. Þingmennirnir tilheyra sérstakri þingnefnd um persónuvernd og hafa sent mörgum fyrirtækjum áþekk bréf.

Í bréfinu kemur fram að áhyggjurnar séu ekki síst vegna þess að Google sé ekki með hreinan skjöld þegar kemur að verndun persónuupplýsinga. Vilja þingmennirnir því vita hvernig Google hyggist koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. 

Þingmennirnir vilja einnig vita hvernig Google hyggist vernda einkalíf fólks sem ekki nota gleraugun eða þeirra sem vilja ekki að tækið beri kennsl á sig í gegnum samfélagsmiðla á borð við Facebook. Fyrirtækið hefur fram til 14. júní til þess að svara bréfinu.

Heimasíða Google Glass

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert