Velja spjaldtölvuna frekar en kynlíf

Fólk virðist eyða meiri tíma með spjaldtölvunni í rúminu en …
Fólk virðist eyða meiri tíma með spjaldtölvunni í rúminu en makanum ef marka má nýja breska rannsókn AFP

Bretar stunda kynlíf mun sjaldnar en áður og er það meðal annars rakið til þess að fólk leiki sér frekar í spjaldtölvunni þegar upp í rúm er komið en að gæla við rekkjunaut sinn.

Á vef Guardian kemur fram að þetta sé niðurstaða nýrrar lífstílsrannsóknar, National Survey of Sexual Attitudes and Lifestyles, en samkvæmt henni hefur tíðni kynmaka Breta dregist saman um 20% frá síðustu könnun sem er frá árinu 2000.

Auk þess sem spjaldtölvur eru nefndar sem áhrifavaldur þá er efnahagskreppan og þunglyndi einnig talin hafa áhrif.

Samkvæmt rannsókninni stundar meðal-Bretinn á aldrinum 16-44 ára kynlíf tæplega fimm sinnum í mánuði en árið 2000 voru skiptin 6,2 hjá karlmönnum og 6,3 hjá konum.

Í grein sem birtist í Lancet kemur fram að í viðtölum sem tekin voru við þátttakendur á tímabilinu september 2010 til ágúst 2012 tali fólk um efnahagskreppuna en árið 2000 stóð hagkerfi Bretlands mun sterkar.

Aftur á móti bendir rannsóknin til þess að fólk stundi kynlíf lengur á lífsleiðinni en áður og að rekkjunautarnir séu fleiri á efri árum en áður var.

mbl.is