Microsoft hættir stuðningi við Windows XP

Microsoft hættir stuðningi við Windows XP stýrikerfið 8. apríl. Sérfræðingur Nýherja segir að Microsoft muni hætta að gefa út öryggisuppfærslur og því verði tölvur með Windows XP viðkvæmari fyrir tölvuárásum og vírusum.

Windows XP er enn næstútbreiddasta stýrikerfi á einkatölvumarkaði á eftir Windows 7, eða með í kringum 30% markaðshlutdeild á heimsvísu. Talið er að markaðshlutdeild Windows XP hér á landi sé í kringum 10%.

Snæbjörn Ingólfsson sérfræðingur hjá Nýherja segir í bloggi á vef Nýherja að sú staðreynd að Microsoft hætti stuðningi við XP þann 8. apríl muni ekki hafa meiriháttar áhrif fyrst um sinn.

„Það sem gerist er að tölvubúnaður sem keyrir enn á Windows XP mun verða viðkvæmari fyrir tölvuárásum og vírusum. Microsoft mun hætta að gefa út öryggisuppfærslur fyrir stýrikerfið, sem þýðir að ef finnast öryggisholur í Windows XP eftir 8. apríl verða ekki gefnir út plástrar (e. Patch) til að loka fyrir þær,“ segir Snæbjörn. 

Snæbjörn segir að margir framleiðendur hugbúnaðar og jaðartækja hætti að styðja við Windows XP og því fækkar slíkum tækjum. „Ekki er heldur sjálfgefið að nýjar tölvur keyri Windows XP því nýjustu hörðu diskarnar eru þannig úr garði gerðir að ekki er hægt að setja Windows XP upp á þá.“ 

En hvað geta Windows XP notendur gert? Snæbjörn segir að best sé að uppfæra tölvuna í nýrra stýrikerfi, Windows 7 eða Windows 8.1. Ekki er víst að allar eldri gerðir tölva ráði við Windows 8.1 en þær gætu ráðið við Windows 7. „Ef tölvan er orðin mjög gömul er líklegt að tími sé kominn til að endurnýja hana,“ segir Snæbjörn.

Hægt er að lesa blogg Snæbjarnar um Windows XP og hvaða leiðir eru færar fyrir notendur hér.

mbl.is