Reikistjörnur í móðurkviði

Reikistjörnur myndast í gasskífu utan um sólstjörnuna HL Tau.
Reikistjörnur myndast í gasskífu utan um sólstjörnuna HL Tau. ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)

Vísindamenn hafa birt skýrustu mynd sem náðst hefur af gasskífu utan um unga stjörnu þar sem reikistjörnur eru að myndast eins og fóstur í móðurkviði. Um stórt skref er að ræða í skilningi manna á hvernig slíkar gasskífur hegða sér og reikistjörnur verða til.

Myndin náðist með ALMA-útvarpssjónaukanum í Atacama-eyðimörkinni í Síle. Loftnet sjónaukans voru færð til þannig að þau voru í um fimmtán kílómetra fjarlægð hvert frá öðru en þannig var hægt að ná mynd í hærri upplausn en áður hefur verið mögulegt.

Gasdiskurinn er utan um HL Tau í stjörnumerkinu Nautinu sem er um það bil milljón ára gömul sólstjarna í um 450 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Það er kornungt á mælikvarða alheimsins. Til samanburðar er sólin okkar um 4,6 milljarða ára gömul. 

Á myndinni má greina hvernig gasdiskurinn skiptist í mismunandi hluta en slíkt hefur aldrei sést á myndum áður og jafnvel má sjá hvar reikistjörnur eru byrjaðar að myndast.

„Þegar við sáum myndina fyrst vorum við furðu lostin yfir hversu stórkostlega nákvæm hún er. HL Tau er ekki meira en milljón ára gömul en engu að síður virðist diskurinn fullur af reikistjörnum sem eru að myndast. Þessi mynd mun út af fyrir sig gjörbreyta kenningum manna um myndun reikistjarna,“ segir Catherine Vlahakis, einn af aðalvísindamönnunum við ALMA-sjónaukann.

Atburðirnir sem menn hafa myndað við HL Tau gefa okkur innsýn inn í uppruna okkar eigin sólkerfis. Sólstjörnur eins og hún og sólin okkar myndast í gas- og rykskýjum sem falla saman undan eigin þunga. Með tíð og tíma byrja rykagnir í skýinu sem verður eftir í kringum stjörnurnar að loða saman, mynda sand, smávölur og stærri grjóthnullunga. Á endanum myndast stærri fyrirbæri á borð við loftsteina, halastjörnur og reikistjörnur. Þegar þessi fyrirbæri öðlast nógu mikinn massa breyta þau lögun gasdisksins umhverfis stjörnuna, mynda hringi og bil í gasinu, líkt og sjá má á myndinni frá ALMA.

Frétt á vef Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli

Fréttin um myndina á vef ALMA-sjónaukans

mbl.is
LOFTDÆLA
Til sölu loftdæla verð kr. 30.000. Upplýsingar í síma 6990930...
UHD skjáir ( 4k )
Upplýsingar gefur Ólafur hjá Varmás ehf. sími 566 8144 ...
LÚGUSTIGAR - SMÍÐUM EFTIR MÁLI
Sérsmíðað, eigum á lager 68x85 og 55x113 Einnig Álstiga í op 45,7x56 eða stærra ...
HARMONIKKUHURÐIR SPARA MIKIÐ PLÁSS
Margar viðartegundir og litir, smíðað eftir máli. Verð frá kr. 13.900,- Sími 61...