„Aldrei séð viðbrögð sem þessi

„Við höfum gefið út myndbönd úr og tengd EVE Online í um áratug, en aldrei séð viðbrögð sem þessi,“ segir Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, um myndband sem fyrirtækið setti inni á myndbandavefinn YouTube. Horft var á myndbandið oftar en milljón sinnum fyrsta sólarhringinn.

„Við frumsýndum myndbandið nú um helgina á EVE Down Under, ráðstefnu EVE Online spilara í Ástralíu. Það þykir ekki endilega klókt að gefa út myndband sem þetta um helgi, en við vildum gefa spilurum leiksins kost á að sjá það fyrst. Til þessa höfum hagað útgáfu á stórum myndböndum sem þessum í takt við áætlanir og virkni fjölmiðla, og horft til þess stórar netgáttir gætu birt myndbandið á virkum degi og á meðan fólk er enn í vinnunni,“ segir Eldar í tilkynningu frá CCP.

Hann segir að ástríða spilara tölvuleiksins EVE Online sé í aðalhlutverki í myndbandinu en í því eru spilarar tölvuleiksins í aðalhutverki frekar en leikurinn sjálfur. Útgáfa myndbandsins fylgir í kjölfar breytinga á þróun leiksins sem CCP hefur ráðist í síðustu mánuði, og vakið hafa töluverða athygli og laðað nýja spilara að leiknum.

mbl.is