„Framleitt í geimnum

Geimfarinn Barry Wilmore heldur á fyrsta hlutnum sem þrívíddarprentarinn um …
Geimfarinn Barry Wilmore heldur á fyrsta hlutnum sem þrívíddarprentarinn um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni prentaði út. NASA

Þrívíddarprentari um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni hefur prentað fyrsta hlutinn í geimnum. Það var íhlutur í prentarann sjálfan með áletruninni „framleitt í geimnum“. Þrívíddarprentun gæti orðið mikilvægur þáttur í geimferðum framtíðarinnar og gert geimstöðina minna háða birgðaflutningum frá jörðinni.

Það er bandaríska geimvísindastofnunin NASA og fyrirtækið Made in Space sem hafa þróað þrívíddarprentarann fyrir geimstöðina. Geimfararnir um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni eru nú að stíga fyrstu skrefin í að prófa prentarann í þyngdarleysi. Geimfarinn Barry Wilmore prentaði fyrsta hlutinn í gær en það var plata úr kassa utan um prentarann. Reyndist platan sterkari en menn bjuggust við og gæti það verið vegna þess að efnið leggst öðruvísi saman við þyngdarleysi.

„Við völdum að prenta þennan hlut fyrst vegna þess að ef við ætlum að hafa varaþrívíddarprentara og varahluti fyrir nauðsynlega hluti í geimnum þá verðum við að gera búið til varahluti í prentarana. Ef prentari er nauðsynlegur geimförum þá verðu hann að geta framleitt íhluta í sjálfan sig svo hann geti haldið áfram að virka í lengri ferðum til staða eins og Mars eða smástirna,“ segir Niki Werkheiser, verkefnastjóri þrívíddarprentara Alþjóðlegu geimstöðvarinnar hjá NASA.

Með því að nota þrívíddarprentara væri hægt að senda teikningar að nauðsynlegum hlutum með tölvupósti til geimstöðvarinnar í stað þess að senda hlutina sjálfa með dýrum geimskotum. Aaron Kemmer, framkvæmdastjóri Made in Space, segir að þær rannsóknir sem menn geri nú með þrívíddarprentarann í geimstöðinni, séu brautryðjendastarf í þróun geimferða.

„Þetta gæti breytt hvernig við förum að því að koma nýjum verkfærum og varahlutum til áhafnar geimstöðvarinnar og gerir henni kleift að vera minna háð birgðaflutningum frá jörðinni,“ segir Kemmer.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má meðal annars sjá þrívíddarprentarann að störfum.

Frétt á vef NASA um þrívíddarprentarann

mbl.is