Heitasta eldgos aldarinnar

Eldgosið í Holuhrauni er það hitamesta það sem af er …
Eldgosið í Holuhrauni er það hitamesta það sem af er þessari öld. mbl.is/RAX

Eldgosið í Holuhrauni hefur framleitt mestan hita allra eldgosa á þessari öld. Kemur þetta fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar en þegar hún var gerð þá hafði eldgosið gefið frá sér þriðjungi meiri hita en rússneska eldfjallið Tolbachik, sem gaus frá 2012 til 2013, en það gos er í öðru sæti.

Robert Wright, prófessor við jarðfræðistofnun Hawaii, fór fyrir rannsókninni sem notaðist við gervihnattagögn um 95 virkustu eldfjöll jarðar frá aldamótum.

Þegar litið er í heild á orkuna sem eldfjöll gefa frá sér þá trónir Kilauea-eldfjallið á Hawaii hins vegar á toppnum, en það hefur stöðugt spúið kviku allan þann tíma sem rannsóknin tekur til. Á eftir því kemur eldfjallið Nyiragongo í öðru sæti og Nyamuragira í því þriðja, en bæði eru þau í Lýðveldinu Kongó. Bárðarbunga er þar í fimmta sæti og Eyjafjallajökull í 31. sæti.

Sjá umfjöllun NASA um rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert