Óttast að smita Mars af lífi

Bláleit sólin sest til viðar í hæðunum í kringum könnunarjeppann …
Bláleit sólin sest til viðar í hæðunum í kringum könnunarjeppann Curiosity á mars. Honum er haldið frá vissum svæðum af ótta við að smita þau af jarðnesku lífi. NASA/JPL-Caltech/MSSS/Texas A&M Univ.

Mannkynið hefur aldrei verið nær því að senda fulltrúa til annarrar reikistjörnu. Hættan er þó sú að annars konar jarðneskt líf hafi þegar numið land á Mars. Til að fyrirbyggja að menn fari til Mars og finni aðeins líf frá jörðinni er bandaríska geimvísindastofnunin NASA með sérstakan reikistjörnuvörð á sínum snærum.

Umræðan um mannaðar ferðir til rauðu reikistjörnunnar Mars hefur stigmagnast undanfarin ár samhliða því sem virðist auknum áhuga á geimferðum almennt. Þannig fangaði bæði lending geimfarsins Philae á halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko síðasta vetur og flug geimfarsins New Horizons fram hjá Plútó í sumar athygli heimsbyggðarinnar. Tilkynningin um sterkustu vísbendingar um að vatn finnist enn á fljótandi formi á Mars vakti ekki síður athygli í haust. 

Það er þó meira en að segja það að koma mönnum til Mars. Lengstu mönnuðu geimferðirnar sögurnar voru tunglferðirnar, sú síðasta þeirra árið 1972. Fjarlægðin til Mars er hins vegar nálægt því sex hundruðum sinnum meiri. Ferðalagið þangað tæki því að líkindum fleiri mánuði og allur leiðangurinn meira en ár. Ekki er vitað hvaða áhrif svo langt ferðalag um geiminn hefur á andlega og líkamlega heilsu geimfara.

NASA vinnur engu að síður að því að þróa tæknina sem til þarf svo hægt verði að senda menn til Mars, jafnvel á fjórða áratug þessarar aldar. Þannig hófust tilraunir með nýja geimfarið Orion í desember í fyrra en þá var því flogið lengra út í geiminn en nokkuð geimfar sem ætlað er að flytja menn hafði flogið frá tunglferðunum. Sagði Charlie Bolden, forstöðumaður NASA, meðal annars á fundi um framtíð mannaðra geimferða í dag að mannkynið hafi aldrei verið nær því að senda menn þangað.

Slappt að finna líf frá jörðinni

Eftir því sem mannaðar ferðir til Mars nálgast það að verða raunverulegar verður meira aðkallandi að huga að vernd reikistjörnunnar. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að örverur geta lifað á geimförum í lengri tíma. Þannig er jafnvel talið að bakteríugró séu enn lifandi á Voyager-geimförunum sem komin eru að ystu mörkum sólkerfisins og var skotið á loft árið 1977.

Þrátt fyrir að á Mars séu aðstæður harðneskjulegar, kaldar, þurrar og útfjólubláir geislar eigi greiða leiða niður á yfirborðið geta örverur sem sníkja sér far með geimförum frá jörðinni því lifað í mörg ár á reikistjörnunni. Það sem menn óttast helst er að þessar bakteríur lifi ekki bara af heldur þrífist á Mars.

„Ef við ætlum að leita að lífi á Mars þá væri það virkilega frekar slappt að flytja með okkur líf frá jörðinni og finna það í staðinn,“ segir Catharine A. Conley sem ber titilinn „reikistjörnuvörður“ hjá NASA í umfjöllun bandaríska blaðsins New York Times um vernd Mars.

Starf hennar felst þannig ekki í að vernda jörðina fyrir herskáum geimverum eins og í Hollywood-kvikmyndum heldur að halda reikistjörnum eins og Mars ósnortnum af jörðinni.

Mega ekki fara inn á viss svæði á Mars

Innrás örvera frá Mars hófst strax á 8. áratug síðustu aldar þegar fyrstu könnunarför manna lentu á reikistjörnunni. Jafnvel þó að menn hafi reynt að dauðhreinsa förin áður en þau hafa verið send þangað er áætlað að þúsundir og jafnvel milljónir baktería hafi ferðast með þeim í gegnum sólkerfið. Þær séu ennþá til staðar á Mars þar sem það tekur mörg ár fyrir þær allar að drepast.

Lendingarförin Viking 1 og 2 eru þau einu sem hafa reynt að greina bein merki um líf á Mars fram að þessu og voru því dauðhreinsuð vandlega áður en þeim var skotið á loft. Eftir að ljós kom að Mars virtist vera lífvana hnöttur hafa þau geimför sem síðan hafa verið send til Mars ekki fengið eins ítarlega hreinsun til að spara kostnað.

Af þessum sökum mega könnunarjeppar NASA, Opportunity og Curiosity, ekki fara inn á viss svæði sem menn hafa afmarkað. Það eru svæði, eins og hlíðarnar þar sem menn komu auga á rákir fljótandi vatns, þar sem talið er að bakteríur frá jörðinni gætu þrifist.

Fylgja alþjóðlegum reglum um verndun

Það gefur því augaleið að þegar menn hefja fyrir alvöru að leita að beinum merkjum um innfætt líf á Mars, ekki síst þegar mannaðir leiðangrar hefjast, muni þeir þurfa að fara sérstaklega varlega.

Kveðið er á um þessar varúðarráðstafanir í geimsáttmálanum sem þjóðir heims rituðu undir árið 1967. Geimrannsóknanefnd Alþjóðavísindaráðsins hefur einnig smíðað stefnu um reikistjörnuvernd sem Conley framfylgir í starfi sínu. Henni er þegar framfylgt. Þannig verður geimfarinu Cassini til dæmis steypt ofan í faðm Satúrnusar eftir að leiðangri farsins lýkur á næsta ári þar sem hitinn og þrýstingurinn mun drepa allar örverur sem enn kunna að leynast á því.

Varlega verður einnig að fara þegar og ef menn lenda geimförum á Evrópu, tungli Júpíters, og Enkeladusi, tungli Satúrnusar, þar sem talið er að fljótandi vatn sé að finna undir ísilögðu yfirborðinu. Mörg ár eru hins vegar þangað til slíkir leiðangrar geta orðið að veruleika og því beinist athygli reikistjörnuvarða fyrst og fremst að Mars.

Hefur áhyggjur af því sem vex á þakinu

Conley segir að umhverfið þar geti verið allsnægtaborð fyrir jarðneskar örverur og fyrstu landnemarnir frá jörðinni gætu verið einfaldar plöntur.

„Ég hef áhyggjur af fléttum [e. lichen]. Ég hef áhyggjur af því sem vex á þakinu heima hjá þér. Það étur í raun og veru grjót og andar að sér sólarljósi. Það er grjót og sólarljós á Mars,“ segir hún.

John M. Grunsfeld, aðstoðarforstöðumaður vísindasviðs NASA, segir að hugmyndir manna um Mars og hversu lífvænleg veröld hann er séu að breytast. Því þurfi að fara að öllu með gát.

„Við þurfum að fylgjast með því sem við erum að gera vegna þess að það gæti verið líf á Mars,“ segir Grunsfeld. 

Umfjöllun New York Times um reikistjörnuvarnir fyrir Mars

Grein XKCD um hve lengi líf endist utan jarðarinnar

Um mannaðar ferðir til Mars á vefsíðu NASA

Lengi hefur verið vitað að vatnís er að finna á …
Lengi hefur verið vitað að vatnís er að finna á Mars en nú virðist komin staðfesting á að vatn renni ennþá á yfirborðinu, að minnsta kosti tímabundið. AFP
Catharine A. Conley, reikistjörnuvörður hjá NASA.
Catharine A. Conley, reikistjörnuvörður hjá NASA. Paul Alers/NASA
Marsjeppinn Opportunity gæti verið með fjölda laumufarþega frá jörðinni um …
Marsjeppinn Opportunity gæti verið með fjölda laumufarþega frá jörðinni um borð. NASA
mbl.is