Keisaraskurðir hafa áhrif á þróun manna

Náttúruval í átt að smærri börnum hefur horfið vegna keisaraskurða …
Náttúruval í átt að smærri börnum hefur horfið vegna keisaraskurða sem bjarga lífi móður og barns sem hefðu að öðrum kosti látist. AFP

Fleiri börn eru nú tekin með keisaraskurði í tilfellum þar sem mjaðmagrind móðurinnar er of þröng en áður. Ástæðuna telja vísindamenn vera reglulega notkun keisaraskurða en fyrir tíma aðgerðarinnar hefði móður og barn að líkindum látist við barnsburð. Aðgerðin hafi haft áhrif á þróun mannsins.

Samkvæmt rannsókn austurrískra vísindamanna hefur tilfellum þar sem börn komast ekki niður úr fæðingarvegi móður fjölgað úr 30 af hverjum 1.000 á 7. áratug síðustu aldar í 36 af 1.000. Það sé á bilinu 10-20% fjölgun á 50-60 árum.

„Af hverju tíðni fæðingarvandamála, sérstaklega það sem við köllum misræmi í hlutföllum fósturs og mjaðmagrindar þar sem barn kemst ekki í gegnum fæðingarveg móður, af hverju er tíðnin svona há? Án nútíma læknisfræðilegs inngrips voru þessi vandamál oft banvæn og þetta er frá þróunarlegu sjónarmiði [náttúru]val. Konur með mjög þrönga mjaðmagrind hefðu ekki lifað barnsburð af fyrir hundrað árum. Þær gera það núna og flytja áfram genin um þrönga mjaðmagrind til dætra sinna,“ segir Philipp Mitteröcker frá deild kennilegrar líffræði við Vínarháskóla.

Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC segir Mitteröcker ætlun vísindamannanna ekki þá að gagnrýna læknisfræðileg inngrip við þessar aðstæður, aðeins að benda á að það hafi haft þróunarleg áhrif.

Vísindamenn hafa velt fyrir sér hvers vegna mjaðmagrindur kvenna hafi ekki víkkað með framrás tímans. Höfuð barna manna séu hlutfallslega stór miðað við afkvæmi annarra prímata sem eiga auðveldara með að fæða. Samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem vísindamennirnir greindu er þróun í átt að stærri ungbörnum sem séu heilbrigðari.

Verði ungbörnin hins vegar of stór geti þau fests við fæðingu sem hefði að jafnaði haft banvænar afleiðingar í för með sér fyrir móður og barn og þau gen hefðu ekki borist áfram.

„Ein hlið þessara náttúruvalsafla, þróun í átt að smærri börnum, hefur horfið með keisaraskurðum,“ segir Mitteröcker.

Hann spáir því að tíðni keisaraskurða eigi eftir að aukast í framtíðinni en lítið og hægt. Ekki sé við því að búast að meirihluti barna verði tekinn með keisaraskurði einn daginn.

Umfjöllun BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert