Þróa nefúða við spilafíkn

Alho segir að spilafíkn hellist mjög snögglega yfir þá sem …
Alho segir að spilafíkn hellist mjög snögglega yfir þá sem af henni þjást. Því gæti úði sem þessi gagnast fólki. AFP

Finnskir vísindamenn ætla að hefja rannsókn á því hvort hægt sé að meðhöndla spilafíkn með fljótvirkum nefúða.

Úðinn inniheldur naloxone sem er notað í bráðaaðgerðum vegna ofneyslu heróíns, morfíns og ópíums. Efnið hindrar framleiðslu dópamíns í heilanum sem talið er tengjast þeirri nautn sem notendur efnanna finna.

„Úðinn fer upp í heilann á nokkrum mínútum svo að þetta er mjög gagnlegt fyrir fjárhættuspilara, ef þig þyrstir í spil þá úðarðu,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Hannu Alho, prófessor í Helsinki.

Um 130 sjálfboðaliðar munu taka þátt í rannsókninni sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, að sögn Alho. Helmingur þátttakenda mun taka úðann með virka efninu en hinn helmingurinn lyfleysu.

Alho segir að spilafíkn hellist mjög snögglega yfir þá sem af henni þjást. Því gæti úði sem þessi gagnast fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert