Skimun vegna krabbameins í blöðruhálskirtli sögð „bitlaust verkfæri“

AFP

Skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli bjargar ekki mannslífum og kann að hafa meira illt í för með sér en gott ef marka má niðurstöður viðamikillar rannsóknar sem fjármögnuð var af góðgerðarsamtökunum Cancer Research UK.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að um sé að ræða stærstu rannsókn sem gerð hafi verið á gildi svonefndra PSA-prófa en niðurstöður hennar séu þær að dánartíðni á meðal karla var hliðstæð óháð því hvort þeir fóru í skimun eða ekki. Aðstandendur rannsóknarinnar segja ennfremur að blóðrannsókn á einkennalausum körlum leiddi í ljós í sumum tilfellum æxli sem væri ólíklegt að yrði skaðleg og í öðrum tilfellum kæmu banvæn æxli ekki í ljós í slíkri skimun.

Með núverandi aðferðum væri ekki hægt að greina á milli góðkynja og illkynja æxla í blöðruhálskirtli. Flest slík æxli væru góðkynja og ljóst væri að einkennalausir karlar gætu lifað án þess að gangast undir meðferð. Þær aðferðir sem notast sé við þýddu ónauðsynlegar áhyggjur og meðferð fyrir karla sem annars hefðu aldrei orðið fyrir óþægindum vegna þess og sem gæti haft í för með sér alvarlegar aukaverkanir eins og getuleysi. Þá færu raunveruleg banvæn æxli í ýmsum tilfellum framhjá slíkri skimun.

Haft er eftir sérfræðingum að niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að nauðsynlegt væri að finna nýjar og nákvæmari leiðir til þess að greina illkynja æxli í blöðruhálskirtli. Haft er eftir dr. Richard Roope að PSA-skimun fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini sé „bitlaust verkfæri“ í þeim efnum. Fram kemur í fréttinni að ráðgjafanefnd breska stjórnvalda þegar kemur að skimun á heilbrigðissviði mælir ekki með því að PSA-skimun sé notuð til þess að greina krabbamein í blöðruhálskirtli.

Rannsóknin náði til yfir 400 þúsund karlmanna á aldrinum 50-69 ára en niðurstöður hennar voru birtar í læknatímaritinu Journal of the American Medical Association.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert