Samfélagsmiðlar draga úr þroska barna

„Like“ á Facebook hafa verið nefnd sem dæmi um þá …
„Like“ á Facebook hafa verið nefnd sem dæmi um þá stöðugu örvun og augnabliksánægju sem fólk ánetjist á samfélagsmiðlum. AFP

Samfélagsmiðlar og tölvuleikir eru að skapa kynslóð barna með vitsmunalegan og tilfinningalegan þroska á við þriggja ára börn. Þetta segir Susan Greenfield, einn fremsti heilalæknir Bretlands, rannsóknarprófessor við Oxford-háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri bresku vísindastofnunarinnar (Royal Institution). Breska blaðið Telegraph greinir frá.

Haft er eftir Greenfield að hún hafi áhyggjur af getu barna til að hugsa sjálfstætt, setja sig í spor annarra og eiga samskipti við fólk. Á börnum dynji stöðug örvun og augnabliksánægja (e. instant gratification) gegnum samfélagsmiðla og tölvuleiki sem börnin verða háð. Þau þurfi því sífellda truflun sem kemur í veg fyrir að þau geti verið ein með eigin hugsunum.

Kjósa rafstuð frekar en einveru

„Ég spái því að fólk verði líkara þriggja ára börnum: tilfinningaríkt, áhættusækið, með slæma félagsfærni, slaka sjálfsímynd og litla einbeitingu,“ segir Greenfield sem var meðal fyrstu fræðimanna til að vara við áhrifum miðlanna á heila barna fyrir um fjórum árum.

Meðal þess sem hún vísar til er nýleg rannsókn frá háskólunum Harvard og Princeton í Bandaríkjunum sem leiddi í ljós að nemendur virtust frekar kjósa að fá rafstuð en að verja tíu mínútum í einrúmi.

AFP

Greenfield segir mikilvægt að börn taki þátt í athöfnum sem hafa upphaf, miðju og endi. Tekur hún sem dæmi lestur bókar, íþróttaiðkun eða garðyrkju. „Ég er farin að líta til þeirra hluta sem þau [börnin] gera ekki, til að mynda líkamlegrar hreyfingar og umfram allt þess að segja sögur.“

Kallar eftir aðgerðum yfirvalda

Susan Greenfield kallar eftir regluverki sem skyldar samfélagsmiðla og leikjaframleiðendur til aðgerða sem verndi börn fyrir skaða á netinu. Hún segir að fyrirtæki eigi að sæta ábyrgð á ávanabindandi hönnun og tækni sem hefur það að markmiði að halda fólki við skjáinn.

„Ef fólk væri meðvitað um hvernig það er misnotað, risi það upp gegn fyrirtækjunum,“ segir Greenfield og bætir við að foreldrar verði að hafa í huga hættuna sem tækni geti fylgt. „Ég vil að foreldrar séu svo meðvitaðir um hana að þau stígi inn í og stoppi börn sín á sama hátt og þau myndu gera með reykingar.“ 

Frétt Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert