Skannaði ráðhúsið inn á hálfum degi

Ráðhúsið fullskannað.
Ráðhúsið fullskannað. Ljósmynd/Jón Bergmann

Með tuttugu leysigeislamyndatökum var hægt að ná nákvæmri þrívíddarmynd af ráðhúsi Reykjavíkur þar sem nákvæmnin er upp á millimetra. Þegar kuldatímabilið gekk yfir í febrúar nýtti verkfræðingurinn Jón Bergmann Heimisson tækifærið og „skannaði“ ráðhúsið frá þeirri hlið sem snýr að Tjörninni, enda lítið mál að athafna sig á frosinni Tjörn. Afraksturinn má sjá í myndbandi sem hann setti á Youtube fyrir skömmu.

Jón Bergmann og Lárus Guðmundsson stofnuðu saman félagið Punktaský síðasta haust, en þá voru þeir báðir að leita sér að verkefnum og höfðu nýlega séð kynningu með þessari tegund tækni og heillast af henni. Með henni sé hægt að klára uppmælingar af rýmum og byggingum á mun styttri tíma en áður var mögulegt.

Mæling stendur yfir við ráðhúsið.
Mæling stendur yfir við ráðhúsið. Ljósmynd/Jón Bergmann

„Vá allir klukkutímarnir sem við höfum eytt í þessa handavinnu“

Jón Bergmann segir í samtali við mbl.is að hann hafi undanfarin 10 ár stafað við þrívíddarhönnun og hönnun á jarðvarmavirkjunum. Hugmyndin að þessum leysigeislamyndavélum eða skanntækjum sé orðin nokkurra ára gömul, en það sé ekki fyrr en fyrir 2-4 árum sem tæknin fór raunverulega að bjóða upp á þá nákvæmni að skipta út gamla laginu með málbandi og skrifblokk fyrir leysigeislamælingu.

„Þegar ég sá þetta fyrst hugsaði ég bara „Vá allir klukkutímarnir sem við höfum eytt í þessa handavinnu.“ Þarna er tækni sem bæði gerir þetta nákvæmar og skilar af sér mun meiri upplýsingum,“ segir Jón Bergmann.

Helstu möguleikar svona tækni eru að hans sögn varðandi ýmiss konar uppmælingu. Það geti gagnast verkfræðistofum og arkitektum, en ekki síður eftirlitsaðilum og jafnvel við alls konar verkefni ótengd byggingageiranum. Þannig segir hann að verktakar geti nýtt tæknina við að taka út eigin verk. Þá geti verkkaupi eða eftirlitsaðilar notað þau til að fylgjast með verktaka og einnig sé hægt að nota þetta við mælingu á stöðum þar sem á að fara að byggja.

Flugvélin þegar búið var að skanna hana alla. Næsta skref …
Flugvélin þegar búið var að skanna hana alla. Næsta skref er svo að þrívíddarprenta hana sem módel. Ljósmynd/Jón Bergmann

Flugvél, fornleifauppgröftur og hellir

Nýlega gerðu þeir félagar einnig þrívíddarmynd af fornleifauppgreftrinum í Hafnarstræti og þá segir Jón Bergmann að hann hafi nýlega klárað að skanna inn flugvél í eigu flugskóla. Það hafi verið í þeim tilgangi að þrívíddarprenta slíka vél í minni stærð þannig að hægt sé að nota hana í kennslu og sýna hana á öllum hliðum án þess að þurfa að vera úti í flugskýli.

Þá segir hann að spennandi verkefni sé líklegast fram undan hjá þeim félögum sem gangi út á að gera þrívíddarmódel innan úr helli, búa til snið og sýna rýmd hellisins.

Margfaldur tímasparnaður

Spurður út í vinnu við eina þrívíddarmynd segir Jón Bergmann að hann hafi verið tæplega hálfan dag að ná myndinni af ráðhúsinu, en það hafi krafist þess að stilla upp leysigeislamyndavélinni um 20 sinnum. Í tilfelli fornleifauppgraftarins hafi hann tekið 10 skot. Hins vegar hafi flugvélin verið 25 skot og í stærstu verkefnum þurfi jafnvel að fara upp í 100 til 200 skannanir.

Verkfræðingarnir Lárus Guðmundsson (t.v.) og Jón Bergmann Heimisson (t.h.) stofnuðu …
Verkfræðingarnir Lárus Guðmundsson (t.v.) og Jón Bergmann Heimisson (t.h.) stofnuðu Punktaský saman. Samsett mynd

Segir hann þetta margfaldan tímasparnað. Í tilfelli ráðhússins hefði reyndar verið erfitt að mæla áður fyrr nema með spjótlyftum eða pöllum og að alla vega vika hefði farið í verkið, ef ekki lengri tími. Segir hann ljóst að með þessari tækni sé sparnaður upp á alla vega nokkra daga þegar kemur að stærri verkefnum og þá bjóði þetta upp á nákvæmni sem ekki þekktist áður. 

Nafnið á fyrirtækinu, Punktaský, gæti hljómað nokkuð framandi og spurður út í uppruna þess segir Jón Bergmann að það sé tilkomið með beinni þýðingu úr ensku. Í raun sé afurð úr þrívíddarleysiskanna kallað „point cloud“ á ensku og það útleggist sem punktaský á íslensku. Skanninn skilar nefnilega niðurstöðum í formi fjölda punkta í þrívíðu formi og slíkt rými geti kallast ský.

Skanninn er ekkert rosalega umfangsmikill.
Skanninn er ekkert rosalega umfangsmikill. Ljósmynd/Jón Bergmann
mbl.is