Varð 99 ára með líffæri á röngum stöðum

Rose Marie Bentley lést er hún var 99 ára gömul …
Rose Marie Bentley lést er hún var 99 ára gömul og hafði hún þá tekið ákvörðun um að nota mætti lík hennar í rannsóknarskyni við háskóla í Portland í Oregon-ríki. Við rannsóknir kom í ljós að líkami hennar var ekki eins og okkar flestra. Ljósmynd/Samsett

Bandarísk kona sem lést í hárri elli árið 2017 hafði ekki hugmynd um það allt sitt líf að fjölmörg líffæri hennar væru á röngum stað, nánar tiltekið í rangri hlið í líkama hennar vegna fágæts meðfædds ástands.

BBC greinir frá þessu merkilega máli í dag, en Rose Marie Bentley lést er hún var 99 ára gömul og hafði hún þá tekið ákvörðun um að nota mætti lík hennar í rannsóknarskyni við háskóla í Portland í Oregon-ríki. Einnig var fjallað um málið á vef háskólans í gær.

Nemendur í líffærafræðitíma í háskólanum voru þannig þeir fyrstu sem uppgötvuðu að ekki væri allt með felldu og að mörg líffæra konunnar væru einfaldlega ekki á þeim stöðum þar sem búast mætti við að þau ættu að vera.

Þrátt fyrir miklar rannsóknir á líki hennar hafa læknar ekki ákvarðað hvað það var sem olli því að líffærin voru ekki á réttum stöðum og segja læknar sem BBC ræðir við að það sé með ólíkindum að hún hafi lifað heilsuhraust jafn lengi og hún gerði.

„Einstaklega óvenjulegt,“ segir dr. Cam Walker, aðstoðarprófessor við háskólann í Portland, en hann hefur ásamt nemendum sínum reynt að komast í allan sannleik um það hvað gæti mögulega skýrt þessa undarlegu líffæralegu í líkama konunnar.

Lifur, magi og önnur líffæri í kvið konunnar vísuðu frá hægri til vinstri, sem er algjörlega þvert á það sem alla jafna gengur og gerist hjá þeirri spendýrategund sem við öll tilheyrum, en þó er talið að einn af hverjum 22.000 einstaklingum fæðist í þessu ástandi, sem kallað er situs inversus with levocardia í læknisfræðinni.

Haft er eftir lækninum Walker að talið sé að einungis einn af hverjum 50 milljónum einstaklinga sem fæðist með þessa líffæraskipan lifi fram á fullorðinsár, og samkvæmt honum eru einungis tvö þekkt dæmi um að einstaklingar hafi lifað fram yfir sjötugsaldur í þessu ástandi.

Bentley var þó með hjartað á réttum stað, vinstra megin í líkamanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert