Leiðtogar óttast Zuckerberg

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook. AFP

Fjármálaráðherrar G7-ríkjanna, sjö helstu iðnríkja heims, gáfu í gær út lista með nauðsynlegum skilyrðum sem nýr rafmiðill Facebook, libra, skyldi uppfylla. Skilyrðin eru ströng og ljóst að gjaldmiðillinn, sem kynntur var í síðasta mánuði, verður ekki tekinn í gagnið á næstu misserum eigi að framfylgja þeim.

Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands sem fer með forsæti í G7 í ár, sagði að ríkisstjórnir landanna myndu ekki sætta sig við að libru væri breytt í sjálfstæðan gjaldmiðil sem gæti „ógnað fjárhagslegum stöðugleika“.

Rafmyntin libra verður dæmi um svokallaða stöðugleikamynt (e. stablecoin) og er ólík rafmyntum á borð við bitcoin að því leyti að flökt gjaldmiðilsins er bundið við körfu eigna (t.d. hefðbundna gjaldmiðla).

Fésbók í síma.
Fésbók í síma. AFP

Vinnuhópur G7-ríkjanna í málefnum stöðugleikamynta samanstendur af stjórnarmönnum úr Evrópska seðlabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fleirum. Benoit Coeuré, formaður hópsins og stjórnarmaður í Evrópska seðlabankanum, segist fagna því að hinn nýi gjaldmiðill geti auðveldað greiðslur og veitt fleirum aðgang að rafhagkerfinu.

Ógnin sé þó til staðar, einkum þegar komi að peningaþvætti, skattaundanskotum og fjármögnun hryðjuverka, sem allt yrði auðveldara með nafnlausum rafmyntum. Bætti Coeuré við að libra gæti veikt getu seðlabanka til að tryggja stöðugleika gjaldmiðla og minnkað traust almennings á heimshagkerfinu.

Skilyrðin fjögur

Libra skal uppfylla sömu kvaðir og aðrir gjaldmiðlar og vera undir eftirliti alþjóðlegra fjármálaeftirlitsstofnana.

Libra skal tryggja „réttarstöðu“ allra notenda sinna á sama hátt og önnur fjármálafyrirtæki.

Öryggisvarnir libru skulu vera á pari við önnur fjármálafyrirtæki og skulu ríki heims sinna eftirlitsskyldu í þeim efnum.

Þær eignir sem gjaldmiðillinn er tryggður í skulu vera öruggar og liggja ljósar fyrir svo almenningur get treyst gjaldmiðlinum.

Ljóst er að töluverð vinna er fram undan hjá Facebook og samstarfsaðilum áður en gjaldmiðillinn mun standa til boða þeim 2,4 milljörðum manna sem nota Facebook. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert