Streita á meðgöngu eykur líkur á persónuleikaröskun barns

AFP

Streita á meðgöngu getur aukið líkur á því að barnið glími við persónuleikaröskun í framtíðinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri finnskri rannsókn. 

Í frétt BBC um rannsóknina kemur fram að börn kvenna sem eru stressaðar á meðgöngu eru tíu sinnum líklegri til að mynda með sér persónuleikaröskun fyrir þrítugt.

„Persónuleikaraskanir eiga það sameiginlegt að vera viðvarandi mynstur innri reynslu og hegðunar sem er verulega frábrugðin væntingum þess samfélags sem einstaklingurinn býr í. Þessi frávik eru öfgakennd og ósveigjanleg, hefjast oft í lok barnæsku og upphafi táningsáranna og valda togstreitu ellegar hömlum í lífsgæðum viðkomandi. Ekki er hér átt við einstaka tilfelli árekstra milli einstaklingsins og umhverfis hans, heldur viðvarandi mynstur yfir lengri tíma.  Tíðni þeirra sem eru með persónuleikaröskun er 11% á Íslandi sem er sambærilegt og víða í Evrópu,“ samkvæmt því sem kemur fram á vef Geðhjálpar. 

Yfir 3.600 þungaðar konur tóku þátt í rannsókninni í Finnlandi og voru þær beðnar að meta streitu á meðgöngu og síðan var fylgst með börnum þeirra vaxa úr grasi. Geðlæknar mæla með því að þungaðar konur hafi aðgang að geðheilbrigðisþjónustu.

mbl.is