NASA kynnir nýja geimbúninga

Kristine Davis, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA í nýja xEMU búningnum.
Kristine Davis, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA í nýja xEMU búningnum. Ljósmynd/NASA/Joel Kowsky

Þeir eru þægilegir, passa vel og það er auðvelt að hreyfa sig í þeim. Svona er nýjum geimbúningum, sem NASA, Geimferðastofnun Bandaríkjanna, kynnti í gær, lýst. Nota á þá í fyrirhugaðri ferð NASA til tungslins, svokallaðri Artemis 3 ferð sem fara á eftir fimm ár.

Jim Bridenstine, forstjóri NASA, kynnti búningana við athöfn í höfuðstöðvum NASA í Washington DC.  Nýju búningarnir eru um margt ólíkir fyrri geimbúningum. Fyrir það fyrsta eru þeir gerðir í einni stærð sem síðan er hægt að aðlaga hverjum og einum geimfara. 

Dustin Gohmert, verkefnastjóri hjá NASA, í nýja Orion-búningnum.
Dustin Gohmert, verkefnastjóri hjá NASA, í nýja Orion-búningnum. Ljósmynd/NASA/Joel Kowsky

Tvenns konar búningar

Um er að ræða tvenns konar búninga; Orion kallast annar þeirra og hann er ætlaður geimförum á ferðalaginu til og frá tunglinu og getur haldið geimfara á lífi í allt að sex daga ef eitthvað kemur fyrir geimfarið eins og t.d. ef loftþrýstingur fellur inni í því. 

Hinn búningurinn heitir Exploration Extravehicular Mobility Unit, skammstafað xEMU, og er hannaður fyrir tunglgöngu. Hann er léttari en fyrirrennarar hans og því talsvert auðveldara fyrir geimfara að hreyfa sig í honum og ganga nánast eins og á jörðu niðri.

Amy Ross, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA, Jim Bridenstine forstjóri NASA, Kristine …
Amy Ross, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA, Jim Bridenstine forstjóri NASA, Kristine Davis geimbúningaverkfræðingur hjá NASA og Dustin Gohmert, verkefnastjóri hjá NASA. Ljósmynd/NASA/Joel Kowsky

Til dæmis getur sá sem klæðist nýja búningnum teygt hönd yfir höfuð sér, nokkuð sem ekki hefur verið hægt í geimbúningi hingað til.  Þá býður nýi búningurinn upp á meiri hreyfingu í fótum og efri hluta líkamans. 

Kate Rubins, geimfari hjá NASA, sagði við kynninguna í gær að þetta skipti sköpum. „Ef þú þarft að taka upp stein, ef þú ert að skoða eitthvað, ef þú ert að koma rannsóknartæki fyrir - þá er nauðsynlegt að geta hreyft efri hluta líkamans.“

Kristine Davis, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA í nýja búningnum.
Kristine Davis, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA í nýja búningnum. Ljósmynd/NASA/Joel Kowsky

Að auki er búningurinn úr efni sem hrindir geimryki frá. Í honum eru um átta klukkustunda birgðir af súrefni, auk varabirgða sem eiga að duga í klukkustund til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert