NASA kynnir nýja geimbúninga

Kristine Davis, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA í nýja xEMU búningnum.
Kristine Davis, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA í nýja xEMU búningnum. Ljósmynd/NASA/Joel Kowsky

Þeir eru þægilegir, passa vel og það er auðvelt að hreyfa sig í þeim. Svona er nýjum geimbúningum, sem NASA, Geimferðastofnun Bandaríkjanna, kynnti í gær, lýst. Nota á þá í fyrirhugaðri ferð NASA til tungslins, svokallaðri Artemis 3 ferð sem fara á eftir fimm ár.

Jim Bridenstine, forstjóri NASA, kynnti búningana við athöfn í höfuðstöðvum NASA í Washington DC.  Nýju búningarnir eru um margt ólíkir fyrri geimbúningum. Fyrir það fyrsta eru þeir gerðir í einni stærð sem síðan er hægt að aðlaga hverjum og einum geimfara. 

Dustin Gohmert, verkefnastjóri hjá NASA, í nýja Orion-búningnum.
Dustin Gohmert, verkefnastjóri hjá NASA, í nýja Orion-búningnum. Ljósmynd/NASA/Joel Kowsky

Tvenns konar búningar

Um er að ræða tvenns konar búninga; Orion kallast annar þeirra og hann er ætlaður geimförum á ferðalaginu til og frá tunglinu og getur haldið geimfara á lífi í allt að sex daga ef eitthvað kemur fyrir geimfarið eins og t.d. ef loftþrýstingur fellur inni í því. 

Hinn búningurinn heitir Exploration Extravehicular Mobility Unit, skammstafað xEMU, og er hannaður fyrir tunglgöngu. Hann er léttari en fyrirrennarar hans og því talsvert auðveldara fyrir geimfara að hreyfa sig í honum og ganga nánast eins og á jörðu niðri.

Amy Ross, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA, Jim Bridenstine forstjóri NASA, Kristine ...
Amy Ross, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA, Jim Bridenstine forstjóri NASA, Kristine Davis geimbúningaverkfræðingur hjá NASA og Dustin Gohmert, verkefnastjóri hjá NASA. Ljósmynd/NASA/Joel Kowsky

Til dæmis getur sá sem klæðist nýja búningnum teygt hönd yfir höfuð sér, nokkuð sem ekki hefur verið hægt í geimbúningi hingað til.  Þá býður nýi búningurinn upp á meiri hreyfingu í fótum og efri hluta líkamans. 

Kate Rubins, geimfari hjá NASA, sagði við kynninguna í gær að þetta skipti sköpum. „Ef þú þarft að taka upp stein, ef þú ert að skoða eitthvað, ef þú ert að koma rannsóknartæki fyrir - þá er nauðsynlegt að geta hreyft efri hluta líkamans.“

Kristine Davis, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA í nýja búningnum.
Kristine Davis, geimbúningaverkfræðingur hjá NASA í nýja búningnum. Ljósmynd/NASA/Joel Kowsky

Að auki er búningurinn úr efni sem hrindir geimryki frá. Í honum eru um átta klukkustunda birgðir af súrefni, auk varabirgða sem eiga að duga í klukkustund til viðbótar.

mbl.is