„Facebook hefði leyft Hitler að kaupa auglýsingar“

Breski leikarinn og uppistandarinn Sacha Baron Cohen gagnrýnir Facebook, Google, …
Breski leikarinn og uppistandarinn Sacha Baron Cohen gagnrýnir Facebook, Google, Twitter og YouTube fyrir að ota „fáránlegu efni að milljarði manna“. AFP

Sacha Baron Cohen, leikari og uppistandari, fullyrðir að ef Facebook hefði verið til á tímum Adolfs Hitler hefði það reynst honum fínasti vettvangur til að koma gyðingahatri sínu á framfæri. 

Cohen gerði Facebook að umtalsefni í ræðu sem hann flutti í New York á dögunum á samkomu þar sem fjallað var um ærumeiðingar. Hann gagnrýndi einnig Google, Twitter og YouTube fyrir að ota „fáránlegu efni að milljarði manna“. 

Samfélagsmiðlarisar og tæknifyrirtæki líkt og Google sæta mikilli gagnrýni fyrir hversu auðvelt það er að dreifa fölskum upplýsingum, sérstaklega í kosningabaráttu. 

„Ef þú borgar þeim mun Facebook birta hvaða pólitísku auglýsingu sem er, jafnvel þótt hún sé lygi. Svo hjálpa þeir þér meira að segja að miða auglýsingunni að sérstökum hópi og tryggja þannig hámarksárangur,“ sagði Cohen meðal annars.  

Með þessari hugmyndafræði hefði Facebook, að mati Cohen, leyft Hitler að birta 30 sekúndna langar auglýsingar þar sem hann útskýrir „lausnina á gyðinga-vandamálinu“. Facebook hefur ekki brugðist við yfirlýsingum Cohen. 

Twitter hefur bannað allar pólitískar auglýsingar en bannið tók gildi í gær. Þá hefur Google tilkynnt stefnubreytingu varðandi póli­tísk­ar aug­lýs­ing­ar, í átt til auk­ins gagn­sæ­is. Helsta breyt­ing­in er sú að ekki verður leng­ur hægt að beina póli­tísk­um aug­lýs­ing­um að til­tekn­um hóp­um, byggt á meint­um póli­tísk­um skoðunum hóp­anna.

Sérfræðingar í tæknigeiranum segja Facebook vera undir auknum þrýstingi að grípa til aðgerða af svipuðum toga. Mark Zucker­berg, stofnandi Facebook, hef­ur legið und­ir ámæli fyr­ir að segj­ast ekki ætla að bregðast við misvísandi pólitískum auglýsingum á miðlinum. 

Cohen sagði að tími væri kominn til að endurskipuleggja samfélagsmiðla og endurskoða hvernig hatursáróðri, samsæriskenningum og lygum er dreift.

Frétt BBC

mbl.is