Meydómspróf verði bönnuð

T.I. lætur kanna meydóm dóttur sinnar á hverju ári.
T.I. lætur kanna meydóm dóttur sinnar á hverju ári. AFP

Yfirvöld í New York-ríki eru með til athugunar að banna svonefnd meydómspróf eftir að bandarískur rappari reitti marga til reiði með ummælum sínum um að hann færi með dóttur sína í skoðun hjá kvensjúkdómalækni á hverju ári til að kanna hvort meyjarhaft hennar sé órofið.

Þingmaður demókrata á ríkisþingi New York,Michaelle Solages, hefur lagt fram frumvarp til laga um að leggja bann við slíkum rannsóknum en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur lýst því yfir að þær byggi ekki á vísindalegum grunni og nálgist að vera kynferðislegt ofbeldi. „Meyjarhafts-próf eru ekki nauðsynleg í læknisfræðilegum skilningi. Þau eru oft sársaukafull og niðurlægjandi,“ segir Solages.

WHO hvatti til þess í fyrra að hætt væri að framkvæma slík próf enda sannaði tilurð meyjarhafts ekki hvort kona hafi stundað kynlíf eður ei. 

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir svo um meyjarhaftið: „Í gegnum tíðina hefur gjarnan verið litið svo á að allar hreinar meyjar hafi órofið meyjarhaft og blæðingar við fyrstu samfarir taldar sönnun þess að stúlkan sé óspjölluð. Þetta gat (og getur sjálfsagt enn í einhverjum samfélögum) skipt miklu máli ef brúðir áttu að vera hreinar meyjar við hjónaband. Raunin er hins vegar sú að meyjarhaftið getur vel rofnað án þess að stúlka hafi haft samfarir.

Meyjarhaftið er þunn himna sem tilheyrir ytri kynfærum kvenna. Hún er fyrir utan leggöngin og í miðju haftsins er svolítið op sem tíðablæðingar komast í gegnum. Það er mjög einstaklingsbundið hversu þykkt haftið er og hversu stórt opið er. Almennt er meyjarhaftið mjög þunnt og viðkvæmt fyrir kynþroska og algengt er að það rifni eða rofni alveg í íþróttum eins og fimleikum, hjólreiðum og hestamennsku, við notkun tíðatappa eða við sjálfsfróun. Þetta gerist oft án þess að stúlkan átti sig á því þar sem það er alls ekki algilt að sársauki og blóð fylgi því að meyjarhaftið rofni.

Ef meyjarhaftið hefur ekki rofnað við íþróttaiðkun, sjálfsfróun eða af annarri ástæðu rofnar það oftast við fyrstu samfarir. Í sumum tilfellum er meyjarhaftið þó teygjanlegt og rofnar ekki alveg fyrr en eftir nokkur skipti. Leifar af meyjarhafti hverfa úr líkamanum við fæðingu fyrsta barns. 

Haftið getur í sumum tilfellum verið það lítið að það veiti enga fyrirstöðu við samfarir. Það getur einnig rifnað við margvíslega áreynslu. Því getur verið hæpið að líta svo á að meyjarhaftið sé óyggjandi sönnun fyrir óspjölluðum meydómi.“

Rapparinn T.I. (Clifford Harris), sem hefur unnið til þrennra Grammy-verðlauna, greindi frá því í hlaðvarpi í nóvember að hann færi með dóttur sína, sem er orðin 18 ára, á hverju ári til kvensjúkdómalæknis til þess að láta kanna hvort meyjarhaft hennar væri rofið. Að hann fari jafnframt fram á að læknirinn greini honum frá niðurstöðunni undantekningarlaust.

Solages segir ummæli T.I. og rannsóknir þær sem hann lætur gera á dóttur sinni óásættanleg. Með þeim sendi hann skilaboð um að konur séu eign og það er einfaldlega ekki rétt. Frumvarpið, sem hún segir að njóti breiðs stuðnings, verður rætt á ríkisþinginu í janúar. Ef það verður samþykkt eiga læknar, sem gera slíkar rannsóknir, á hættu að missa lækningaleyfið. Aðrir eiga yfir höfði sér ákæru um kynferðislegt ofbeldi. 

T.I. hefur í tvígang setið í fangelsi, fyrir ólöglegan vopnaburð og brot á fíkniefnalöggjöfinni.

mbl.is