Brotist inn í síma Jeff Bezos

Forstjóri Amazon, Jeff Bezos ásamt unnustu sinni, Lauren Sanchez, við …
Forstjóri Amazon, Jeff Bezos ásamt unnustu sinni, Lauren Sanchez, við Taj Mahal í gær en þau eru á ferðalagi í Indlandi. AFP

Brotist var inn í snjallsíma stofnanda Amazon, Jeff Bezos, árið 2018 eftir að hann fékk send WhatsApp skilaboð. Heimildir breska fjölmiðilsins Guardian herma að skilaboðin hafi verið send úr persónulegum aðgangi krónprinsins í Sádi-Arabíu.

Talið er að dulkóðuð skilaboðin úr númeri Mohammed bin Salman hafi innihaldið spilliforrit sem komið var fyrir til þess að njósna um ríkasta mann heims. Sérfræðingar telja mjög líklegt að spilliforritið hafi verið í myndskeiði sem fylgdi skilaboðunum frá Salman til Bezos, sem er eigandi bandaríska dagblaðsins Washington Post.

Mennirnir höfðu átt í vinsamlegum samskiptum í gegnum WhatsApp þegar skilaboðin voru send 1. maí 2018. Mikið magn upplýsinga fór úr síma Bezos næstu klukkutíma eftir að hann tók við skilaboðum frá prinsinum. Guardian hefur ekki vitneskju um hvaða gögn er að ræða og hvað var gert við þau en talið er að þetta geti haft áhrif víða, ekki síst í fjármálaheiminum og hjá tæknifyrirtækjum.

Frétt Guardian í heild

Sendiráð Sádi-Arabíu í Washington vísar á bug ásökunum um að konungdæmið hafi komið nálægt því að hakka síma Bezos. „Nýlegar umfjallanir fjölmiðla um að konungdæmið standi á bak við að hakka síma Jeff Bezos eru fáránlegar.“ segir í Twitter-færslu sendiráðsins. Þar er farið fram á að rannsókn verði gerð á þessum ásökunum þannig að hægt sé að fá allar staðreyndir á hreint.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert