„Feitari með hverri kynslóðinni“

Þorgeir Þorgeirsson erfðafræðingur og Kári Stefánsson læknir munu tala um …
Þorgeir Þorgeirsson erfðafræðingur og Kári Stefánsson læknir munu tala um offitu á opnum fræðslufundi á laugardag. mbl.is/Ásdís

Á morgun, laugardag 1. febrúar, klukkan 13 verður opinn fræðslufundur um offitu í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar. Þar munu valinkunnir læknar og erfðafræðingar ræða offitu, erfðaþætti og fíkn.

Íslendingar eru þyngstir allra Norðurlandaþjóða og virðist staðan versna með hverju árinu. Hvað veldur offitu hefur löngum verið spurning sem vísindamenn hafa velt fyrir sér og sitt sýnist hverjum. Erfðir, umhverfi og fíkn eru þeir þættir sem nefndir hafa verið sem ástæður. Gullna spurningin sem brennur á fólki er auðvitað hvort hægt sé að „lækna“ offitu. Sú manneskja sem finnur upp megrunarpillu mun að öllum líkindum bæði vinna Nóbelsverðlaun og verða ofurrík.

Blaðamaður leitaði svara við offituvandanum hjá Kára Stefánssyni lækni og Þorgeiri Þorgeirssyni erfðafræðingi, sem verða meðal fyrirlesara á fræðslufundinum.

Umbunarkerfið vanstillt

Fíkn er einn þeirra þátta sem rætt verður um á fundinum og veit Þorgeir mikið um þau mál. „Það er gott að borða og fólk getur ánetjast mat eins og öðru. Það er deilt um hvort matarfíkn sé til, en það er að minnsta kosti munur á henni og fíkn í vímuefni. Allir þurfa að borða en vímuefni eru ekki lífsnauðsynleg,“ segir Þorgeir og útskýrir málið nánar.

„Það eru ákveðin kerfi í heilanum sem skila umbun. Umbunin er mikilvæg. Sumt er sameiginlegt í því kerfi hjá fólki sem sækist eftir mat og fólki sem sækir í vímuefni. Vímuefnin vaða beint með offorsi inn í þetta kerfi en maturinn fer kannski meiri krókaleið,“ segir Þorgeir og Kári bætir við að það að leita í mat sé aðferð til að ná sér í umbun.

„Ein túlkun er sú að þetta umbunarkerfi sé eitthvað vanstillt; stillt á of mikla sækni. Og það sé orðið til vandræða á okkar tímum þegar aðgengi að mat er auðvelt og búið að lauma sykri í allt,“ segir Þorgeir.

„Þetta er ofboðslega flókið. Hvað er fíkn og hvað er löngun í mat?“ spyr Kári, en hann mun tala um áhrif heilans á BMI-stuðulinn á fundinum, ásamt að tala um fjölgenarannsóknir.

Þorgeir og Kári nefna að þeir sem þjást af offitu gætu ef til vill haft gagn af að sækja í hópstuðning og fylgja reglum í ætt við tólf spora kerfið, eins og fíklar gjarnan gera.

„Það eru til ýmsar aðferðir til að grennast og einhver lyf sem ætluð eru til þess að minnka matarlyst, en það má samt segja að að einhverju leyti hafi heilbrigðiskerfið svikið feita fólkið og það vanti fleiri úrræði,“ segir Þorgeir.

Samspil erfða og umhverfis

„Ég held að ástæða offitu sé að langmestu leyti það sem við köllum „neuro-behavioural disorder“ eða hegðunarvandamál. Þó að það sé einhver munur á brennslu hjá fólki er hann mjög lítill miðað við muninn í hegðun, og hegðunin er drifin áfram af starfsemi heilans,“ segir Kári og nefnir að offita sé arfgeng.

Á fundinum tala einnig Alma Möller landlæknir, Ragnar Bjarnason, prófessor og yfirlæknir á LSH, og Tryggvi Helgason barnalæknir, sem mun fara yfir hvernig þyngd barna er að þróast hér á landi og hvað við getum gert meira til að snúa þessari þróun við.

Ítarlegra viðtal við Þorgeir og Kára er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert