Android-símar andsetnir vegna ljósmyndar

Ekki setja þessa mynd sem skjámynd á Android-símanum þínum.
Ekki setja þessa mynd sem skjámynd á Android-símanum þínum. Ljósmynd/Gaurav Agrawal (https://www.flickr.com/photos/117605304@N07/48746079687)

Bandaríkjamaðurinn Gaurav Agrawal átti sér einskis ills von þegar hann smellti af litfagurri landslagsljósmynd í þjóðgarði í Montana í lok síðasta sumars. Hann vann myndina lítillega í forritinu Lightroom og skellti henni svo á Flickr-síðuna sína og velti því svo ekkert sérstaklega fyrir sér.

Skömmu síðar fóru Agrawal að berast fjölmörg skilaboð um að það ylli bilun í snjallsímum að nota myndina sem skjámynd. Í snjallsímum sem styddust við stýrikerfið Android 10 olli myndin því að símarnir slökktu og kveiktu á sér stjórnlaust og oft var engin leið að gera við bilunina nema með því að endurræsa símann frá grunni, sem þýddi að öll gögn þurrkuðust út.

Agrawal sver í viðtali við BBC að ekkert misjafnt hafi vakað fyrir honum þegar hann birti myndina. Hann vann hana sem fyrr segir í Lightroom, og þar liggur hundurinn grafinn. Hann valdi þar eina af þremur litastillingum forritsins og sú sem hann valdi reyndist vera tormelt fyrir sum Android-stýrikerfi.

Vont varð verra þegar notandi á Twitter tísti og varaði fólk við að nota myndina á Android-símum. Tístið breiddist út hratt og varð ekki ólíklega til þess að margir prófuðu að setja myndina sem skjámynd til þess að sjá hvort þetta stæðist. Eins og sést í myndbandinu hér að ofan þolir síminn þetta mjög illa. 

Agrawal er áhugaljósmyndari og segir við BBC að helst hefði hann viljað sjá mynd eftir sig öðlast heimsfrægð sakir listræns gildis. Í þetta skiptið gerðist það af annarri ástæðu, en hann segir hinn sigurinn bíða betri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert