Mest rangra upplýsinga á Facebook

Facebook birtir mikið magn falskra upplýsinga.
Facebook birtir mikið magn falskra upplýsinga. AFP

Hvergi er að finna meira af fölskum upplýsingum um heimsfaraldur kórónuveiru en á samfélagsmiðlinum Facebook. Þetta kemur fram fram í rannsókn Press Gazette um málið. Að því er fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar birtir Facebook umtalsvert meira af röngum upplýsingum en aðrir samfélagsmiðlar. 

Samfélagsmiðlar hafa undanfarin misseri legið undir ámæli fyrir að birta mikið magn ósanninda. Hefur Facebook einna helst orðið fyrir gagnrýni, en nú síðast hefur nokkur fjöldi fyrirtækja ákveðið að sniðganga auglýsingar á miðlinum. Alls eru fyrirtækin 900 talsins og krefjast þau úrbóta áður en auglýst verður að nýju. 

Að því er fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar voru um 7.295 vafasamar fullyrðingar um kórónuveiruna skoðaðar. Af þeim voru rétt ríflega fjögur þúsund fyrst birtar á Facebook. Næst kom Twitter með rétt um fjórðung af þeim fjölda sem birtur var á Facebook. Í rannsókninni segir þó enn fremur að niðurstöðurnar séu ekki tæmandi en gefi aftur á móti góða vísbendingu um falskar birtingar á miðlunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert