Líkur á kaldari vetri í Evrópu

Snjór í borginni Burgos á Norður-Spáni í desember 2010.
Snjór í borginni Burgos á Norður-Spáni í desember 2010. AFP

Desembermánuði gætu fylgt kaldari hitastig í Evrópu en íbúar álfunnar hafa átt að venjast síðustu ár, þar sem veturnir hafa hlýnað nærri með hverju árinu sem líður.

Þetta má ráða úr langtímaveðurspám vísindamanna við Kópernikusarstofnun Evrópusambandsins fyrir komandi vetur.

Milljarðar ólíkra mæligagna

Síðasti vetur var sá hlýjasti í álfunni frá því mælingar hófust. Nú er búist við að veturinn í vændum verði nær langtímameðaltali hvað varðar hitastig, þrátt fyrir að 40-50% líkur séu á að svæði í Suður-Frakklandi og í Austur-Evrópu muni sjá hitastig vel yfir meðallagi.

Líkan stofnunarinnar leggur saman gögn frá vísindamönnum í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Bandaríkjunum. Notast er við milljarða ólíkra mæligagna frá gervihnöttum, skipum, loftförum og veðurstöðvum um allan heim.

Hundur í snjó. Myndin tengist fréttinni mátulega.
Hundur í snjó. Myndin tengist fréttinni mátulega. AFP

50% líkur á mikilli ofankomu í Skandinavíu

Þrátt fyrir líkur á kaldari vetri en venjulega telja vísindamennirnir meðal annars 40-50% líkur á að hitastig í Evrópu í nóvember verði vel yfir langtímameðaltali.

Íbúar Skandinavíu eigi þá 50% möguleika á að upplifa ofankomu vel yfir sögulegu meðaltali í desember.

Fjallað er nánar um spána á vef viðskiptafréttavefsins Bloomberg, en orkukaupmenn líta gjarnan til spáa á borð við þessa með tilliti til verðþróunar á jarðgasi og rafmagni.

mbl.is