Trump og Twitter

AFP

Donald Trump á að hættu að glata fleiru en forsetaembættinu í janúar þar sem Twitter hefur staðfest að ef Trump hættir sem forseti Bandaríkjanna muni hann ekki lengur njóta sérstakrar þjónustu samfélagsmiðilsins sem markverður einstaklingur.

Stefna Twitter varðandi slíka einstaklinga, svo sem kjörna fulltrúa sem eru með yfir 250 þúsund fylgjendur, er að þeir njóta ákveðinna fríðinda umfram aðra. Svo sem að aðgangi þeirra er ekki eytt eða þeir bannaðir vegna brota á ákvæðum varðandi skrif á miðilinn.

Þessi stefna Twitter þýðir að í stað þess að fjarlægja 12 færslur Trumps undanfarna daga hefur miðillinn sett inn ábendingu um að færslurnar séu misvísandi. Trump hefur ekki látið þetta stöðva sig og heldur áfram að sá efasemdarfræjum um framgang lýðræðisins í Bandaríkjunum.

Á Guardian kemur fram að Twitter hafi staðfest að þessi stefna eigi ekki við fyrrverandi kjörna embættismenn. Þeir verði að fylgja sömu reglum og aðrir og ef færslur þeirra brjóta gegn reglum miðilsins þá verði þær fjarlægðar og tilkynntar til eftirlitsaðila.

Frétt Guardian

 

 

mbl.is