SpaceX og NASA skutu upp geimflaug í nótt

SpaceX Falcon 9-eldflaug tekst á loft frá skotpalli 39A í …
SpaceX Falcon 9-eldflaug tekst á loft frá skotpalli 39A í Kennedy-geimstöðinni í Flórída í nótt. AFP

SpaceX og bandaríska geimferðastofnunin NASA skutu í nótt Dragon Resilience-flaug á loft, sem er framleidd af SpaceX. Geimflauginni var skotið á loft frá Kennedy-geimstöð NASA í Fórída og heppnaðist skotið vel.

Fjórir geimfarar manna flaugina, þrír frá Bandaríkjunum og einn frá Japan. För þeirra er heitið til Alþjóðlegu geimstöðarinnar, ISS. 

Eldflaugin, sem er af gerðinni Falcon 9, og geimflaugarhylkið eru framleidd af SpaceX, fyrirtæki í einka- og meirihlutaeigu Elon Musk. Er þetta í annað skipti sem fyrirtækið SpaceX veitir slíka þjónustu.

Boða nýja tíma

Talsmenn NASA boða nýja tíma í samvinnu við einkafyrirtæki þar sem ferðir geimfara að sporbraut nálægt jörðu verða þjónustaðar með þessum hætti af einkafyrirtækjum.

Geimfararnir í þessari ferð eru Bandaríkjamennirnir Michael Hopkins, Victor Glover og Shannon Walker og Japaninn Soichi Noguchi. Noguchi er þaulreyndur geimfari sem er nú sá þriðji í sögunni til þess að ferðast út í geiminn í þrenns konar geimförum. 

Joe Biden sendir heillaóskir

Joe Biden hefur sent SpaceX og NASA heillaóskir sínar með árangur geimskotsins á Twitter eins og sjá má hér að neðan:

mbl.is