@POTUS til Biden í janúar

AFP

Twitter staðfesti í dag að samfélagsmiðillinn myndi afhenda Joe Biden umsjón með aðgangi forseta Bandaríkjanna á miðlunum, @POTUS, þegar hann sver embættiseið 20. janúar 2021. Skiptir þar engu hvort Donald Trump núverandi forseti viðurkenni ósigur sinn í nýafstöðnum kosningum.

Í skriflegu svari til AFP-fréttastofunnar verður færslan eins og hún var árið 2017 þegar Trump tók við embættinu af Barack Obama. Reikningar tengdir @POTUS, það er @FLOTUS (forsetafrú Bandaríkjanna) og @VP (varaforseti Bandaríkjanna) sem og aðrir opinberir Twitter-reikningar fylgja með.

Á þeim degi verða þeir núllstilltir og Biden fær umsjón með þeim. 

Trump, sem enn hefur ekki viðurkennt að hafa tapað, hefur notað Twitter mikið til að koma málum sínum á framfæri þessi fjögur ár sem hann hefur gegnt embætti forseta. Samt sem áður eru fylgjendur hans persónulega á Twitter, @realDonaldTrump, mun fleiri eða 88 milljónir talsins. Fylgjendur @POTUS eru 32 milljónir.

Í dag er @POTUS helst notaður til að endurtísta persónulegum færslum Trumps sem og annarra í starfsliði Hvíta hússins. 

mbl.is