Bóluefni AstraZeneca sýnir 70% virkni

AFP

Bresk-sænski lyfjarisinn AstraZeneca greindi frá því rétt í þessu að bráðabirgðagreining á gögnum úr rannsóknum á bóluefni gegn kórónuveirunni sem fyrirtækið hefði þróað með Oxford háskóla sýndi 70 prósenta virkni bóluefnisins. Þannig verndar bóluefnið 70% þeirra sem bólusettir eru með efninu fyrir kórónuveirunni.

Í síðustu viku tilkynntu tveir lyfjaframleiðendur að bóluefni þeirra hefðu um 95% virkni, bóluefnið verndaði því 95% þeirra sem bólusettir eru með efninu, samkvæmt niðurstöðum fyrirtækjanna, Moderna annars vegar og BioNTech og Pfizer hins vegar. 

Samkvæmt fréttastofu BBC er bæði um sigur og vonbrigði að ræða hjá AstraZeneca, sérstaklega þar sem önnur bóluefni hafa sýnt mun meiri virkni. Þrátt fyrir það er Oxford-AztraZeneca bóluefnið mun ódýrara en hin tvö. Þá er einnig mun auðveldara að geyma það og að koma því til allra heimshorna. 

Því mun bóluefnið spila stórt hlutverk í viðbrögðum við veirunni ef lyfjastofnanir samþykkja það. 

mbl.is