Óvænt uppgötvun um virkni lyfsins gegn Covid

Frá gjörgæsludeild í Chicago þar sem Covid-19 sjúklingar eru meðhöndlaðir.
Frá gjörgæsludeild í Chicago þar sem Covid-19 sjúklingar eru meðhöndlaðir. AFP

Esther Viktoría Ragnarsdóttir vann meistararitgerð í lyfjafræði um lyfið ivermectin, sem helst er notað gegn sníkjudýrasýkingum í fólki sem býr í Afríku, og skoðaði í rannsókn sinni hvort möguleiki væri á að gefa börnum lyfið með nefúða. Það sem hún komst að á leiðinni var að lyfið hefur einnig sýnt virkni gegn veirunni sem veldur Covid-19.

„Upprunalega átti ritgerðin alls ekki að tengjast Covid en þegar ég fór að skrifa og leita heimilda sá ég nokkrar greinar sem fjölluðu um þetta. Ég talaði mikið við leiðbeinandann minn um þetta. Honum fannst alveg um að gera að skrifa um þetta þar sem við erum í miðjum heimsfaraldri. Hann var sjálfur ekki alveg viss hvað væri á bak við það því þetta er allt svo nýtt,“ segir Esther í samtali við mbl.is.

Afríka ekki farið jafn illa út úr Covid og gert var ráð fyrir

Lyfið ivermectin er notað við sníkjudýrasjúkdómum t.d árblindu (e. river blindness) og fleiri vanræktum sjúkdómum þróunarlanda. Þessir sjúkdómar eru mjög algengir í Afríku sunnan Sahara. Lyfið er bæði gefið sem meðferð og til að fyrirbyggja sjúkdóma á þeim svæðum þar sem þar sem þeir eru hvað útbreiddastir. Fólk tekur lyfið gjarnan í u.þ.b 15 ár eða þann tíma sem tekur sníkjudýrið að drepast. 

„Margir hafa furðað sig á því hvers vegna Afríka virðist hafa sloppið betur en búist var við varðandi sýkingar og dauðsföll af völdum Covid-19 og nokkrar ástæður hafa verið taldar til. Þjóðin er ung, hún er vön að glíma við farsóttir og svo virðist sem að þeir sem þjást af sníkjudýrasjúkdómum sýkjast ekki eins alvarlega af Covid-19 og ekki í eins miklum mæli og aðrir. Þegar ég fór að fylgjast með útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins á netinu í þeim Afríkulöndum þar sem lyfið er notað virðist vera minna um sjúkdóminn við árnar þar sem það er mest notað. Því velti ég því fyrir mér hvort ivermectin hafi hugsanlega einhver fyrirbyggjandi áhrif gegn SARS-CoV-2,“ segir Esther. 

Esther Viktoría Ragnarsdóttir.
Esther Viktoría Ragnarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hún fann þá rannsóknir ástralskra vísindamanna sem studdu grun um að lyfið hefði góð áhrif gegn SarS-Cov-2, veirunni sem veldur Covid-19.

„Vísindamenn í Ástralíu könnuðu þetta lyf gegn veirunni í tilraunaglasi og fengu mjög áhugaverðar niðurstöður, því lyfið virtist hafa mjög mikil áhrif á stuttum tíma. Mér fannst þetta áhugaverður vinkill á þetta margbrotna lyf og vildi endilega hafa það með í ritgerðinni,“ segir Esther.

Ódýrt lyf og niðurstöður lofa góðu

Í kjölfar rannsóknar áströlsku vísindamannanna, hafa margir aðrir vísindamenn og fagaðilar gert tilraunir á Covid-sjúklingum með því að nota lyfið eitt og sér eða með öðrum lyfjum.

„Niðurstöður hafa lofað nokkuð góðu, sérstaklega ef lyfið er tekið snemma í veikindaferlinu. Lyfið er ódýrt, breiðvirkt og hefur sannað virkni sína gegn ýmsum sjúkdómum og hefur fáar sem engar aukaverkanir. Ef niðurstöður fleiri rannsókna á ivermectin gegn SarS-CoV-2 koma til með að reynast jákvæðar og öruggar er lyfið eflaust góður kostur í þeirri baráttu, sérstaklega fyrir fátækari þjóðir heims,“ segir Esther. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert