Líf á Mars?

Myndin sýnir könnunarjeppann í taug geimfarsins sem flaug með hann …
Myndin sýnir könnunarjeppann í taug geimfarsins sem flaug með hann að yfirborðinu. Myndina tók gervihnöttur á braut um reikistjörnuna. AFP

„Er líf á Mars?“ spurði Bowie árið 1971, eins og frægt varð. Fimmtíu árum síðar hefur enn ekki fengist svar og sjálfur söngvarinn er horfinn á braut. En hversu líklegt er að líf finnist á Mars og hvenær fáum við þessu svarað?

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, ræddi við mbl.is. 

Hann fylgdist spenntur með því þegar Perseverance, könnunarfar NASA, lenti á reikistjörnunni Mars í gærkvöldi eftir um sjö mánaða ferðalag frá jörðinni.

Ari starfaði í áratug hjá geimferðastofnuninni sem vísindamaður og stjórnandi, meðal annars yfir hugbúnaðarþróun fyrri könnunarfara, og gat því lifað sig vel inn í andrúmsloftið hjá starfsfólki NASA í gær.

„Það voru ein fjögur ár af ævi minni sem fóru í undirbúning fyrir Spirit og Opportunity, sem lentu í janúar 2004, og ég man eftir því að hafa setið og horft á skjáinn – næstum því haldandi niðri í mér andanum í korter – að fylgjast með lendingunni,“ segir Ari og hlær í samtali við mbl.is.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. Ljósmynd/Eva Björk

Heyrðist ekki píp

Tækninni hefur fleygt fram undanfarin ár. Þannig tók það töluvert lengri tíma árið 2004 að ná sambandi við förin eftir að þau lentu.

„Það var þónokkur stund sem það heyrðist ekki píp frá geimfarinu. Og allir með öndina í hálsinum. Og svo kom merkið frá því, að allt væri í lagi. Mikil gleði.

Þannig að þetta var svona svipuð tilfinning í gær, nema að þetta gerist allt miklu hraðar. Þau eru í betra sambandi, það eru gervihnettir sem eru á sporbaug um Mars sem geta verið í sambandi við geimfarið, og þannig veitt miklu fyrr upplýsingar og í raun bara jafnóðum greint frá því hvernig staðan er. Þannig það er kannski bara í mínútu sem ekkert heyrist frá geimfarinu.“

Getur leitað að áhugaverðum stöðum

En hvaða þýðingu hefur lendingin?

„Þetta er fimmti jeppinn og fjórði verulega öflugi jeppinn sem fer til Mars. Þannig þetta er eitt skref í viðbót á ákveðinni vegferð. En þetta er sérstaklega stórt vegna þess hversu öflugur þessi jeppi er, og mælitækin og greiningartækin sem eru um borð í honum.

Þetta er tæki sem getur raunverulega leitað að mjög áhugaverðum stöðum, skoðað það mjög vel, borað sig ofan í yfirborðið til að fá miklu betri upplýsingar um hvort það hefði getað verið örverur þarna í fortíðinni, og svara spurningum sem fyrri geimför hafa bara ekki haft tæknina til að svara,“ segir Ari.

„Þannig að þetta er raunverulega skref áfram í að komast nær því að svara spurningunni hvort það hafi verið líf á Mars og síðan hitt, að þetta er hluti af undirbúningi að því að senda fólk til Mars.“

Könnunarjeppinn Perseverance seig á yfirborð Mars í taug annars geimfars.
Könnunarjeppinn Perseverance seig á yfirborð Mars í taug annars geimfars. AFP

Fjarlægur heimur

Aðspurður segir Ari vanmetið hversu óhagstæðar aðstæður eru á rauðu reikistjörnunni fyrir líf mannfólks.

„Þetta er fjarlægur heimur og þó að þetta sé svona systurpláneta jarðarinnar þá eru þetta engu að síður mjög erfiðar aðstæður. Það er meiri geislun þarna en við eigum að venjast á yfirborðinu, það þarf að vernda fólk fyrir því. Það er svo að segja ekkert súrefni í andrúmsloftinu sem er ekki bundið koltvísýringi. Andrúmsloftið er mest hreinn koltvísýringur.

Það er ofsalega kalt þarna, sérstaklega á næturnar. Þannig að það þarf að passa vel upp á að vernda fólk fyrir kuldanum.“

Hann bendir einnig á að loftþrýstingurinn sé ekki nema eitt prósent af því sem hann er á yfirborði jarðar.

„Þannig að fólk þarf alltaf tól og tæki og vernd, til að geta athafnað sig og verið þarna.“

Ástæðurnar hverfa ekkert

Margir hafa í gegnum tíðina átt þann draum að yfirborði Mars verði breytt á þann veg að það líkist jörðinni, með öllu vatni, súrefni og þeim gróðri sem því tilheyrir.

„Ég hef alltaf haft mínar efasemdir um það. Þó að Mars sé svolítið minni en jörðin. Það að bæta það miklu súrefni og vatni í gufuhvolfið svo að hægt verði að vera þar án stuðnings, það er ótrúlega stórt verkefni og miklu stærra en ég held að fólk geri sér grein fyrir.“

En síðan lendirðu í sömu vandræðum og hafa leitt Mars í þá stöðu sem hann er í í dag. Það var nefnilega vatn á Mars og það var þykkara gufuhvolf. En það hvarf.“

„Ástæðurnar fyrir því að Mars getur ekki lengur haldið í gufuhvolfið sitt, þær hverfa ekkert.“

Segulsvið vantar í kringum reikistjörnuna, sem verndar gufuhvolfið og yfirborðið gegn geimgeislun og ögnum að utan.

„Við breytum því ekkert. Alla vega ekki með neinni tækni sem við getum ímyndað okkur í dag.“

„En við getum verið þarna, til langs tíma. Við getum nýtt auðlindir, við getum verið þarna við vísindarannsóknir og átt þarna ákveðna tegund af heimili. Við þurfum bara að vera viðbúin því að það er þá undir hvelfingum sem búa okkur til umhverfi sem við getum verið í, og þegar við förum á milli þá þurfum við búninga.

Rétt eins og á Íslandi, maður þarf hús og góðan skjólfatnað,“ segir hann léttur í bragði.

Fagnaðarlætin voru mikil hjá starfsfólki NASA þegar ljóst varð að …
Fagnaðarlætin voru mikil hjá starfsfólki NASA þegar ljóst varð að jeppinn var lentur heilu og höldnu. AFP

Verður stór dagur í sögu mannkyns

Nú er leitað að lífi á Mars. Hvernig er það, hefur nokkurn tíma fundist líf utan jarðar?

„Nei, við erum ekki komin á þann stað og það verður gríðarlega stór dagur í sögu mannkynsins, þegar við vonandi fáum óyggjandi sannanir. En við munum líka gera gríðarlega miklar kröfur til þeirra sönnunargagna sem sem munu sýna fram á það.“

Þess vegna megi ekki endilega búast við fyrirsögninni: „Líf á Mars“ á næstu dögum, þó þetta tímamótafar sé þangað komið. Ekki síður vegna þess að um áratugur er þar til jarðvegssýnin, sem farið á að taka, eiga að koma til rannsókna hér á jörðu.

„En það er alveg hægt að hafa fyrirsögnina „Líf á Mars?“, með spurningarmerki,“ segir Ari og blaðamaður grípur síðar tækifærið.

Ari heldur áfram: „Einhvern tíma hefði þetta þótt fáránleg spurning. Í dag er þetta raunveruleg vísindaleg spurning, þar sem við vitum ekki enn þá svarið.“

Spurður hvort líkur séu á að á endanum megi svara spurningunni játandi, segir hann að þær séu töluverðar ef miðað er við jörðina, enda hafi fengist staðfest að vatn hafi áður runnið um Mars.

„Og staðreyndin er sú að það er eiginlega sama hvar við finnum vatn á jörðinni, þar er alltaf líf.“

mbl.is