Leyna einkennum breytingaskeiðsins

Margar konur finna fyrir hitakófum sem koma eins og skrúfað …
Margar konur finna fyrir hitakófum sem koma eins og skrúfað sé frá krana, hvar og hvenær sem er. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þriðjungur kvenna sem hafa fundið fyrir einkennum breytingaskeiðsins segist hafa leynt því á vinnustað og margar telja skömm fylgja þessu tímabili í lífi kvenna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókn sem gerð var meðal kvenna á vinnumarkaði í fimm löndum. Rætt var við yfir 5 þúsund konur í Bretlandi, Ítalíu, Þýskalandi, Spáni og Suður-Afríku um reynslu þeirra af tíðahvörfum.

Í öllum löndunum fyrir utan Ítalíu hafði þriðjungur kvenna leynt einkennum og á Spáni hafði yfir helmingur kvennanna upplifað smán í kringum tíðahvörf á vinnustað. Svo virðist sem konur í Suður-Afríku hafi átt auðveldast með að ræða tíðahvörf við vinnufélaga. Um 28% ítalskra kvenna höfðu leynt fylgikvillum fyrir vinnufélögum. 

Þær sem fundu snemma fyrir einkennum, það er 45 ára og yngri, voru líklegastar til að skammast sín svo mikið að þær leyndu því alfarið í vinnunni. 

Sjá nánar á vef Guardian

Ásdís Ásgeirsdóttir fjallaði um breytingaskeiðið í Sunnudagsmogganum árið 2018.

„Flestar konur sem ná miðjum aldri ganga í gegnum hið alræmda breytingaskeið. Kvensjúkdómalæknirinn Berglind Steffensen segir að hægt sé að gera ýmislegt til að létta konum lífið á þessu lífsskeiði. 

Í saumaklúbbum kvenna á fimmtugs- og sextugsaldri er gjarnan rætt um einkenni breytingaskeiðsins; oft hvimleið einkenni sem valda miklum óþægindum og pirringi. Sumar konur vakna í svitabaði á nóttinni í rennblautu rúmi en aðrar þjást af endalausum blæðingum sem gera engin boð á undan sér. Margar konur finna fyrir hitakófum sem koma eins og skrúfað sé frá krana, hvar og hvenær sem er. Það getur verið vandræðalegt á miðjum vinnudegi að roðna eins og karfi af engu tilefni og þurfa helst að stinga höfðinu út um glugga! Depurð, svefnleysi, þreyta og skapsveiflur eru önnur einkenni sem geta fylgt þessu tímabili í lífi hverrar konu. Til allrar hamingju er hægt að minnka óþægindin á ýmsan hátt; bæði með hjálp læknisfræðinnar sem og með hollu líferni og hreyfingu. 

Svefnleysi eftir hitakóf

Margar konur finna vel fyrir líkamlegum og andlegum breytingum í kringum tímann þegar blæðingum lýkur en aðrar fara léttar í gegnum tímabilið. Algengt er að breytingaskeiðið svokallaða hefjist milli 45 og 50 ára en hjá litlum hópi kvenna getur það hafist fljótlega eftir 40 ára aldur.

„Meðalaldur þegar blæðingar hætta er um 52 ár hjá íslenskum konum en einkenni breytingaskeiðsins hafa oft staðið yfir í nokkur ár áður en blæðingar hætta alveg. Breytingaskeiðið getur varað í mörg ár og sumar konur losna aldrei alveg við einkenni þess. Í flestum tilvikum standa þau yfir í 3-5 ár að meðaltali en það getur verið mjög einstaklingsbundið,“ segir kvensjúkdómalæknirinn Berglind Steffensen, en hún fær til sín margar konur sem leita lausna á sínum óþægindum.

Hún segir einkennin geta verið mörg; hita- og svitakóf, blæðingatruflanir, skapgerðarbreytingar, svefntruflanir, þreyta, þurrkur í leggöngum, þvagfærasýkingar, liðverkir, verkir við blæðingar, brjóstaspenna, minnkuð kynhvöt, þyngdaraukning og fyrirtíðarspenna.

„Flestar koma vegna nokkurra einkenna en algengast finnst mér vera blæðingartruflanir og hita- og svitakóf, enda sérlega óþægilegt og þreytandi. Hitakófin eru oft slæm á nóttunni og hindra góðan nætursvefn og geta líka komið án fyrirvara yfir daginn og oft á óþægilegum tímum fyrir framan hóp af fólki. Konunum finnst það óþægilegt en ennþá verra er að vera líka svefnlaus eftir að hafa vaknað í hitakófi sem jafnvel er það slæmt að þurfi að skipta á rúminu,“ segir hún.

„Blæðingatruflanirnar eru oft þannig að styttist eða lengist á milli blæðinga, sem geta verið stundum mjög miklar eða það getur líka blætt í nokkrar vikur samfleytt og því geta oft fylgt verkir og óþægindi. Það er mjög hamlandi og getur valdið þreytu og slappleika vegna blóðleysis og járnskorts.“

Lífsgæðin skipta miklu máli

Konur sem þjást af kvillum breytingaskeiðs geta hafið meðferð undir leiðsögn læknis.

„Tilgangur meðferðar er að auka lífsgæði konunnar og þegar einkenni eru slæm er algengt að ráðleggja uppbótarmeðferð með estrógenhormónum og oftast er einnig gefið prógesterónhormón líka, nema konan hafi farið í legnám eða sé með prógesterónhormónalykkju. Hægt er að gefa þessi hormón með töflum, plástrum eða geli,“ segir Berglind.

Hún segir einkenni og áhættuþætti fyrst metin áður en meðferð hefjist. Einnig skipti afstaða konunnar til slíkrar meðferðar miklu máli og mikilvægt sé að fara vel yfir kosti og galla meðferðarinnar.

„Hormónameðferð virkar oft mjög vel á hitakófin og stundum einnig blæðingatruflanirnar en alls ekki hjá öllum. Flestum konum líður betur, en eins og við aðrar lyfjameðferðir geta komið fram aukaverkanir eins og bjúgur, brjóstaspenna, hjartsláttartruflanir eða blæðingatruflanir, svo að þetta er alls ekki lausn fyrir allar konur,“ segir hún.

„Fyrir þær konur sem finna lítið fyrir hitakófum en hafa þurrk í leggöngum sem getur valdið óþægindum við samfarir er hægt að mæla með staðbundnu estrógeni sem sett er í leggöngin. Þetta geta allar konur notað, líka þær sem hafa fengið brjóstakrabbamein,“ segir hún.

„Oftast eru konurnar að taka hormónalyfin í tvö til fimm ár en einstaka sinnum lengur. Það eru alltaf einhverjar sem líður betur á hormónum og kjósa að halda áfram þó að ekki sé mælt með því en ef lífsgæði þeirra eru miklu meiri á lyfjunum verður að muna að lífsgæðin skipta miklu máli og ekki má bara einblína á hugsanlegar aukaverkanir. Það er mælt með árlegu eftirliti þar sem lyfjameðferð er endurmetin,“ segir Berglind.

Andlega hliðin fer stundum á hliðina á breytingaskeiðinu og fylgir stundum mikil depurð og breyting á andlegri líðan. Berglind segir að þá megi íhuga meðferð með þunglyndislyfjum ef hormónameðferðin hefur ekki bætt líðan. Þunglyndislyf eins og Venlafaxin geta líka haft góð áhrif á hitakófin og er það stundum notað hjá þeim sem ekki geta tekið hormónalyf.

Berglind leggur einnig áherslu á að ræða við konur á breytingaskeiði um hreyfingu og mataræði. „Það skiptir ekki síður máli á þessu æviskeiði enda getur það spornað gegn þyngdaraukningu, sem er algeng á þessu tímabili, bætt andlega líðan og unnið gegn beinþynningu svo eitthvað sé nefnt,“ segir hún.

„Það verður einnig að taka fram að það er mjög misjafnt hversu slæm einkennin eru; einstaka konur fá nánast engin einkenni og þurfa enga meðferð en aðrar fá veruleg einkenni og skert lífsgæði en sem betur fer gengur þetta yfir hjá flestum konum,“ segir Berglind að lokum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert