Upplýsingar um færð vega beint í leiðsögukerfin

Upplýsingar um færð og veður verða brátt aðgengilegar í leiðsögukerfum …
Upplýsingar um færð og veður verða brátt aðgengilegar í leiðsögukerfum snjalltækja og bifreiða. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Vegfarendur munu brátt geta fengið upplýsingar um færð og ástand vega beint í leiðsögukerfi, til dæmis á borð við Google Maps, í snjalltækjum sínum.

Vegagerðin hefur hafið að gefa út upplýsingar á svokölluðum samevrópskum DATEXII-staðli og verða þær þar með gerðar aðgengilegar alþjóðlegum leiðsöguþjónustum, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.

Verkefnið var unnið með fjárveitingu sem til kom af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna óveðursins í desember 2019 en sama fjárveiting hefur einnig verið nýtt til að þróa vef um veður og sjólag, sem kynntur verður á næstunni.

Upplýsingar í rauntíma

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti þessar nýjungar á opnum veffundi Vegagerðarinnar í morgun, þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi góðra og réttra upplýsinga í þágu almannaöryggis.

DATEXII-staðallinn gerir erlendum leiðsöguþjónustum kleift að sækja þær upplýsingar sem Vegagerðin birtir um vegakerfið, svo sem um veður og færð, í rauntíma hvort heldur sem er í farsímum eða leiðsögukerfum bifreiða.

mbl.is