Börn reykingamanna fjórfalt líklegri til að reykja sjálf

Í rannsókn sem herferðin styðst við segir að 4,9 prósent …
Í rannsókn sem herferðin styðst við segir að 4,9 prósent þeirra unglinga sem eiga foreldra sem reykja hafi einnig tekið upp á því. AFP

Sérfræðingar í Bretlandi vara við því að börn þeirra sem reykja eru fjórum sinnum líklegri til þess að reykja sjálf í framtíðinni. Í nýrri herferð bresku ríkisstjórnarinnar eru foreldrar og forráðamenn hvattir til þess að hætta að reykja á nýju ári.

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Í herferðinni, „Better Health Smoke Free“, er lögð áhersla á að sýna hvaða áhrif reykingar fullorðinna hafa á börn og ungt fólk.

Í rannsókn sem herferðin styðst við segir að 4,9 prósent þeirra unglinga sem eiga foreldra sem reykja hafi einnig tekið upp á því. Þá byrji aðeins 1,2 prósent unglinga að reykja sem eiga foreldra sem reykja ekki sjálfir.

Margir sem reyna að hætta að reykja í janúar

Maggie Throup, þingkona Íhaldsflokksins, sagðist vona að rannsóknin gæfi foreldrum aukna hvatningu til þess að hætta.

„Við vitum að margir gera tilraun til að hætta að reykja í janúar og þótt það séu margar góðar ástæður til að hætta að reykja fyrir sjálfan sig vonum við að þessi nýja herferð  með því að leggja áherslu á tengsl milli kynslóða reykinga og foreldra sem hafa áhrif á börn sín  verði aukinn hvati sem margir þurfa á að halda til þess að sleppa sígarettunum fyrir fullt og allt á næsta ári,“ sagði hún.

„Það er hjálp og stuðningur í boði fyrir foreldra, umönnunaraðila og alla sem vilja hætta að reykja,“ bætti hún við.

mbl.is