Bóluefni gegn apabólu væntanlegt í lok júlí

Bóluefni við apabólu er væntanlegt til landsins í lok júlí.
Bóluefni við apabólu er væntanlegt til landsins í lok júlí. AFP

Von er á sendingu hingað til lands á samtals 1.400 skömmtum af bóluefninu Jynneos gegn apabólu í lok júlí. Íslensk heilbrigðisyfirvöld tryggðu sér byrgðir af bóluefninu með þátttöku í Evrópusamstarfinu HERA.

Bóluefnið Jynneos er sambærilegt bóluefninu Imvanex. Það er skráð til notkunar fyrir fullorðna við bólusótt og talið að það veiti einnig vernd gegn apabólu. Gert er ráð fyrir að bólusetning verði boðin þeim sem verða útsettir fyrir apabólu, sérstaklega einstaklingum með undirliggjandi ónæmisbælingu og heilbrigðisstarfsmönnum. Bóluefnið getur einnig veitt vernd ef gefið fyrstu dagana eftir útsetningu.

Evrópusambandið hefur annast kaup á bóluefninu. Því er úthlutað til þeirra þjóða sem taka þátt í Evrópusamstarfinu HERA og EU4health og er úthlutunin hlutfallsleg í samræmi við íbúafjölda hverrar þjóðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert