Stanislas Dehaene – frá eind til heildar

Þjálfun í lestri gerir það svo að verkum að barn …
Þjálfun í lestri gerir það svo að verkum að barn nær að lesa sífellt lengri orð, skrifa Hermundur og Einar. mbl.is/Colourbox

Stanislav Dehaene er einn fremsti fræðimaður heims á sviði heilastarfsemi og færniþróunar og er stuðst við kenningar hans í verkefninu Kveikjum neistann, sem snýst um að efla læsi í skólum. Hermundur Sigmundsson og Einar Gunnarsson fjalla í grein sinni um kenningar Dehaenes.

Þegar barn stundar nám í skóla reynir mikið á hug þess og heila og segja má að kennarar séu að vinna með og þjálfa heila nemenda í skólanum. Því er mikilvægt að veita því athygli hvernig heilinn þroskast og þróast hjá börnum til þess að þau byggi upp þá færni sem þeim er ætlað að ná. Í þróunarverkefninu Kveikjum neistann sem starfrækt er við Grunnskóla Vestmannaeyja er stuðst við kenningar nokkurra fremstu vísindamanna heims og hafa nokkrum þeirra verið gerð skil í pistlum hér í Morgunblaðinu.

Að brjóta lestrarkóðann

Í þessum pistli viljum við vekja athygli á einum þeirra vísindamanna sem Kveikjum neistann styðst við en það er hinn franski Stanislas Dehaene sem er prófessor við Collége de France og einn fremsti fræðimaður í heiminum á sviði heilastarfsemi og færniþróunar. Til marks um hve virtur vísindamaður Dehaene er þá hefur hann birt á milli 600 og 700 alþjóðlegar vísindagreinar og er með yfir 150.000 tilvitnanir sem þýðir hve oft hefur verið vísað í greinar hans í öðrum vísindagreinum. Norski nóbelsverðlaunahafinn á sviði lífeðlis- og læknisfræði, Edvard Moser, sagði árið 2014 að Stanislas Dehaene væri sá fremsti í heiminum á sviði heilastarfsemi og færni (e. brain and skill).

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann og …
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann og Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dehaene er helsti ráðgjafi Frakka á sviði lestrarmála og hafa rannsóknir hans og skrif meðal annars bent á að í lestrarkennslu verður að byrja með bókstafa-hljóða-kennslu eða hljóðaaðferðina (e. phonics) eins og við köllum hana. Hljóðaaðferðin, frá eind til heildar, er aðferð þar sem unnið er út frá því að heilinn læri fyrst bókstafina og hljóð þeirra (eindirnar) og í kjölfarið setji heilinn saman hljóðin í orð. Fyrst tvö og tvö hljóð saman, svo þrjú og þrjú, þar næst fjögur og fjögur o.s.frv. Til útskýringar þá þarf heilinn fyrst að læra stafina „í“ og „s“ og hljóð þeirra til að geta lesið orðið „ís“. Þjálfun í lestri gerir það svo að verkum að barn nær að lesa sífellt lengri orð.

Einar Gunnarsson er aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.
Einar Gunnarsson er aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.

Barn brýtur lestrarkóðann, eins og við köllum það, þegar það hefur náð að tengja saman nægan fjölda bókstafa við hljóð og getur það verið misjafnt eftir tungumálum hve marga bókstafi og hljóð þarf að tengja saman til að hafa brotið lestrarkóðann. Því má segja að þegar lestrarkóðinn hefur verið brotinn, og aðeins þá, hafi grunnurinn verið lagður fyrir lestrarnám barns. Þannig er bókstafa-hljóða-kunnátta alger lykill að því að komast af stað í lestrarnámi og þá er mikilvægt að við taki markviss þjálfun og aftur þjálfun sem gengur út á lestur bóka, lestur texta, skapandi skrif, örvandi málskilningsumhverfi og framsögn.

Norskt stöðumatspróf

Fyrir nokkrum árum vildi annar undirritaðra (Hermundur Sigmundsson) skoða stöðu í lestri hjá börnum sem voru að hefja skólagöngu í Noregi. Athugunin fólst í að skoða hvernig bókstafa-hljóða-kunnátta væri hjá börnum, hvort þau gætu lesið einstök orð, lesið setningar eða samfelldan texta. Hermundur fór í samstarf með akademískum fræðimönnum við kennaradeild háskólans í Þrándheimi og komst að því að til væri norskt stöðumatspróf, Bokstaftesten, sem þróað hafði verið árið 1992 af Gretu Ofteland en hún var kennari í 40 ár í norskum grunnskólum.

Hermundur hafði samband við Gretu og hóf samstarf við hana og fékk meðal annars að nota stöðumatsprófið hennar í tengslum við doktorsverkefni eins nemanda síns. Samstarfið skilaði þremur vísindagreinum sem birtar voru í virtum tímaritum. Greta býr yfir gríðarlegri reynslu sem lestrarkennari ungra barna. Árið 2002-2003 fylgdi hún eftir 530 nemendum á þeirra fyrsta skólaári og fylgdist grannt með þróun lestrarnáms þeirra. Eftir alla þessa reynslu og upplifun með þúsundum norskra grunnskólabarna er það niðurstaða Gretu að til að brjóta lestrarkóðann þurfi barn að kunna 18-19 bókstafi og hljóð (af 29 bókstöfum í norska stafrófinu).

Nemendur fá þjálfun

Með verkefninu Kveikjum neistann er ætlunin að einblína á áðurnefndar aðferðir og gera foreldra og kennara markvisst meðvitaða um stöðu barnsins í lestrarnáminu. Fyrsti nemendahópur verkefnisins hefur lokið við fyrsta bekk og eftir skólaárið var staðan góð hjá nemendum. Allir nemendur gátu lesið orð, sem sagt höfðu brotið lestrarkóðann, 96% gátu lesið setningar og 88% lesið samfelldan texta. Lykillinn að þessum árangri er markviss vinna með aðferðir LESTU-nálgunarinnar sem byggist á hljóðaaðferð, frá eind til heildar, í anda Stanislas Dehaenes. Annar lykilþáttur er stöðumat og eftirfylgni þar sem nemendur fá þjálfun í skólanum miðað við færni sína á hverjum tíma. Nemendur og foreldrar barna í Kveikjum neistann eru mjög vel upplýst um hver staðan er hverju sinni hvað varðar að brjóta lestrarkóðann, ná að lesa orð eða ná að lesa texta. Í framhaldinu verður unnið að þróun þessarar aðferðar með kennurum, nemendum og foreldrum og við bætist enn meiri þjálfun í lestri bóka, skapandi skrifum og framsögn.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann og Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, Háskóla Íslands.

Einar Gunnarsson er aðstoðarskólastjóri við grunnskólann í Vestmannaeyjum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert