Telja að innri kjarni jarðar hafi breytt um stefnu

Jörðin okkar allra.
Jörðin okkar allra. AFP/NASA

Niðurstöður nýútgefinnar rannsóknar gefa til kynna að innri kjarni jarðar sé mögulega hættur að snúast í sömu átt og jörðin sjálf, og sé jafnvel búinn að breyta um stefnu og fari nú þvert á snúning hennar.

Ekki er vitað hvaða áhrif þetta gæti haft en kenningar um snúning innri kjarnans eru umdeildar og ekki er einhugur um þær innan vísindasamfélagsins. 

Rúmum fimm þúsund kílómetrum neðan við yfirborð jarðar má finna innri kjarna úr járni á stærð við Plútó. Innri kjarninn er umlukinn fljótandi efni, eða svokölluðum ytri kjarna, og er hann talinn snúast óháð snúningi jarðar. 

Það litla sem við vitum um innri kjarnann og snúning hans er út frá mælingum á jarðskjálftabylgjum sem fara í gegnum kjarna jarðar. Vísindamenn eru ekki á sama máli um kenningar varðandi hreyfingar kjarnans og má því búast við að nýjasta rannsóknin veki hörð viðbrögð og mikið umtal.

Ekki ríkir einhugur um kenningar er varða snúning innri kjarnans.
Ekki ríkir einhugur um kenningar er varða snúning innri kjarnans. AFP

Skipti um stefnu á 35 ára fresti

Samkvæmt nýrri rannsókn sem birtist í vísindaritinu Nature Geoscience í gær, þar sem jarðskjálftabylgjur síðustu sex áratuga voru skoðaðar og greindar, hægðist verulega á snúningi innri kjarna jarðar fram til ársins 2009 þar sem hann er talinn hafa stöðvast og svo byrjað að snúast í öfuga átt. 

„Við teljum að innri kjarni jarðar snúist óháð snúningi yfirborðs jarðar, fram og til baka, eins og sveifla,“ segja Xiaodong Song og Yi Yang, rannsóknarhöfundar við fréttastofu AFP.

Þeir telja að innri kjarninn skipti um snúningsstefnu á um það bil 35 ára fresti og að síðast hafi innri kjarninn breytt um stefnu snemma á áttunda áratugnum.

Gæti haft áhrif á lengd sólarhringsins

Ekki er vitað hversu mikil áhrif snúningur innri kjarnans hefur á jarðarbúa.

Að sögn rannsóknarhöfundanna virðist þó vera ákveðin fylgni milli snúningsins og lengd sólarhringsins, þ.e.a.s. breytingar á stefnu innri kjarnans gætu haft smávægileg áhrif á tímann sem það tekur jörðina að snúast um möndul sinn. 

„Við vonum að rannsókn okkar muni hvetja rannsakendur áfram að byggja upp og prófa kenningar sem að gera ráð fyrir að mismunandi lög jarðar séu samþætt og kraftmikið kerfi,“ segja höfundarnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert