Æfa sig fyrir Venus á Íslandi

Vísindamennirnir segja mikilvægt að skilja Venus vegna þess að Venus …
Vísindamennirnir segja mikilvægt að skilja Venus vegna þess að Venus er eins og öfgaútgáfa af jörðinni.

Vísindamenn, þar á meðal hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA, rannsaka nú nýtt hraun á Reykjanesskaganum og hvernig það getur hjálpað þeim fyrir fjarkönnun á plánetunni Venus.

Nota þeir eldvirknina á Reykjanesskaga og ört breytandi landslag þar sem fyrirmynd til að skilja svipað landslag á Venusi. Vísindamennirnir nota háþróaða ratsjártækni til að búa til nákvæmar myndir og kortleggja hvernig landið breytist vegna eldgosa.

Segja þeir mikilvægt að skilja Venus vegna þess að Venus er eins og öfgaútgáfa af jörðinni.

Þetta kemur fram hjá fréttamiðlinum IEEE Spectrum.

Munu gera rannsóknir til að skilja hvernig Venus myndaðist

Teymið, sem samanstendur af vísindamönnum frá NASA, þýsku geimstofnuninni DLR og ýmsum háskólum eins og Háskólanum í Arizona og Háskóla Íslands, er hluti af verkefni sem heitir VERITAS og mun koma til með að sjá um þessa fjarkönnun á Venus.

Vísindamennirnir nota þá innsýn sem fæst við að rannsaka eldfjallalandslag Íslands til að líkja eftir og skilja hvernig svipað landslag gæti verið á Venus. Þetta hjálpar þeim að undirbúa fjarkönnunina á Venus en þar munu þeir gera svipaðar rannsóknir til að skilja hvernig landslag Venusar myndaðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert