Mörg hundruð þúsund plastagnir í flöskuvatni

Plastið er úti um allt.
Plastið er úti um allt. Ljósmynd/Colourbox

Um eitthundrað sinnum meira magn af plastögnum er að finna í vatni í plastflöskum en áður hafði verið talið. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem hefur verið birt í vísindaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. 

Með því að beita nýrri aðferð gátu vísindamenn talið að meðaltali um 240.000 plastagnir í hverjum lítra af vatni í vinsælum tegundum af vatni sem er til sölu í verslunum. Það er á bilinu 10 til 100 sinnum meira en áður hafði verið talið. Þetta gæti haft áhrif á heilsu fólks, og er eitthvað sem þarf að rannsaka frekar. 

Mæla líka með kranavatni

„Ef fólk hefur áhyggjur af nanóplastögnum í flöskuvatni þá er skynsamlegt að skoða aðra möguleika eins og kranavatn,“ segir aðstoðarprófessorinn Beizhan Yan sem kom að gerð rannsóknarinnar. 

„Við erum hins vegar ekki mótfallin því að fólk drekki flöskuvatn þegar það er nauðsynlegt, þar sem hættan á ofþornun getur vegið þyngra en möguleg áhrif örplasts [á einstaklinga].“

Á undanförnum árum hefur heimsbyggðin beint sjónum sínum í auknum mæli að örplasti, sem brotnar úr stærri plasteiningum og finnst nú allstaðar, allt frá jökulbreiðum heimsskautanna upp á hæstu tindi heims. Plastið ferðast í gegnum lífkerfi og kemst í drykkjarvatn og matvæli. 

Nanóplastagnir geta ferðast inn í blóðrásina

Örplast er allt undir fimm millimetrum að stærð. Nanóagnir eru aftur á móti skilgreindar sem agnir sem eru minni en einn míkrómetri, eða einn milljarðasti úr einum metra. Þær eru svo smáar að þær geta ferðast í gegnum meltingarveginn og lungu og komist inn í blóðrásina og þaðan inn í líffæri, m.a. heila og hjarta fólks. Þær geta einnig ferðast í gegnum fylgjur og komist þannig inn í líkama ófæddra barna.

Í umfjöllun AFP segir að aðeins séu til fáar rannsóknir sem skoða áhrif slíkra agna á lífkerfi og heilsu fólks. Nokkrar rannsóknir hafa bent til þess að plastagnirnar geti haft neikvæð áhrif, t.d. á getu fólks til að eignast börn og áhrif á meltingarveginn.

Þróuðu nýja tækni

Vísindamennirnir beittu nýrri aðferð með smásjá, sem kallast á ensku Stimulated Raman Scattering (SRS), sem einn af höfundum rannsóknarinnar hannaði. Aðferðin virkar þannig að sýni er skoðuð með tveimur geislum til að leita uppi ákveðnar tegundir af sameindum, og með aðstoð reiknilíkans í tölvu kemur í ljós um hvers konar sameindir er að ræða. 

Vísindamennirnir beindu sjónum sínum að þremur vinsælum tegundum af flöskuvatni í rannsókninni. Þeir ákváðu þó að birta ekki nöfn tegundanna opinberlega þar sem allar tegundir flöskuvatns innihalda nanóagnir, en hópurinn sagði að það væri ósanngjarnt að sigta aðeins út þrjár tegundir enda málið umfangsmeira en svo. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert