Merkja gervigreindarmyndir á Facebook

Móðurfyrirtæki Facebook, Meta mun innleiða kerfið til þess að sporna …
Móðurfyrirtæki Facebook, Meta mun innleiða kerfið til þess að sporna gegn myndum sem svipa til raunverulegra mynda. AFP/Kirill Kudryavtsev

Meta, móðurfyrirtæki Facebook mun á komandi mánuðum innleiða kerfi sem greinir og merkir myndir á samfélagsmiðlum fyrirtækisins sem búnar eru til af gervigreind. 

Meta mun innleiða kerfið og merkja við myndir búnar til af gervigreind á Facebook, Instagram og Threads. 

Yfirmaður alþjóðasviðs fyrirtækisins, Nick Clegg segir að verið sé að sporna gegn myndum sem svipa til raunverulegra mynda, þegar þær hafa í raun verið búnar til af gervigreind. 

Fréttastofa Reuters greinir frá.

Tækni í þróun 

Meta hefur þegar byrjað að merkja efni sem búið er til af gervigreind á vegum fyrirtækisins, en með innleiðingu nýja kerfisins mun fyrirtækið geta greint og merkt myndir búnar til af gervigreind á vegum Microsoft, OpenAI og Alphabet (móðurfyrirtæki Google) meðal annars. 

Clegg segir í viðtali við Reuters-fréttastofuna að tæknin sé komin nógu langt til þess að greina myndir búnar til af gervigreind með ákveðinni vissu, en að tæknin til þess að greina hljóðefni og myndskeið sé enn í vinnslu. 

Þá sagði hann enn fremur að engin áreiðanleg lausn sé til staðar sem greinir texta sem búinn er til af gervigreind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert