Skrefi nær draumnum um ótakmarkaða hreina orku

Í kjarna sólarinnar verður kjarnasamruni. Í sólinni er nægur þrýstingur …
Í kjarna sólarinnar verður kjarnasamruni. Í sólinni er nægur þrýstingur og hiti til að framkvæma ferlið. Mikill hluti orkunnar sem við nýtum hér á jörðinni er þess vegna upphaflega samrunaorka sem varð til í sólinni, að því er segir í umfjöllun um slíkan samruna á vef Wikipedia. mbl.is/Unnur Karen

Ný tilraun með kjarnasamruna hefur framleitt meiri orku en nokkru sinni áður. Þetta þykir marka nokkur tímamót og færa heimsbyggðina skrefi nær að draumi um ótakmarkaða og hreina orku. 

Tilraunin, sem var framkvæmda á JET-rannsóknarstofunni í Bretlandi, hefur sett heimsmet, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins.  

Kjarnasamruni er sama ferli og sólin notar til þess að framleiða orku, en það felur í sér að kjarnar tveggja frumefna renna saman og mynda nýtt frumefni. Því fylgir mikill hiti, geislun og ljós. Vísindamenn telja að með slíkum samruna væri hægt að búa til gríðarlegt magn orku án þess að hita andrúmsloftið. 

Hefur ekki verið gert áður

Evrópskir vísindamenn sem tóku þátt í tilrauninni segjast hafa náð að framkvæma eitthvað sem aldrei áður hafi tekist. 

Þetta var síðasta tilraunin sem var framkvæmt á JET-rannsóknarstofunni sem hefur rannsakað kjarnasamruna í 40 ár. 

Andrew Bowie, ráðherra kjarnorkumála í Bretlandi, segir að þetta hafi verið viðeigandi svanasöngur. 

Vilja beisla orku sólarinnar

Margir binda vonir við að með ferlinu verði hægt beisla orkuna sem fylgir samrunanum og skapa þannig endalaust magn hreinnar orku án þess að losa koltvísýring. Kjarnasamruni er auk þess ekki undir hæl veðurguðanna settur, líkt og t.d. vind- og sólarorka. 

Vísindamönnunum tókst að framleiða 69 megajúl af orku á fimm sekúndum. Það er aðeins næg orka til að hita fjögur eða fimm baðkör, sem er ekki mjög mikið. 

Mikilvægt samstarf

Fram kemur í umfjöllun BBC, að þó að það sé enn talsvert í land þá sé þetta eitt skref í rétta átt. 

Prófessorinn Stuart Mangles hjá Imperial College í London segir að þetta séu afar spennandi tíðindi. 

„Þessi niðurstaða sýnir skýrt fram á styrk alþjóðlegrar samvinnu, því þessar niðurstöður hefðu ekki litið dagsins ljós án samvinnu mörg hundruð vísindamenna og verkfræðinga um gjörvalla Evrópu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert