Fékk nýra úr svíni og lést tveimur mánuðum síðar

Í fyrsta sinn í heiminum tókst skurðlæknum á Massachusetts General …
Í fyrsta sinn í heiminum tókst skurðlæknum á Massachusetts General Hospital að græða erfðabreytt nýra úr svíni í Slayman. AFP

Fyrsti sjúklingurinn til að fara í nýrnaígræðslu með erfðabreyttu nýra úr svíni er nú látinn tveimur mánuðum eftir aðgerðina.

Þetta segir bandaríski spítalinn sem sá um nýrnaígræðsluna.

„Mass General [spítalinn] er hryggur yfir því að Rick Slayman skuli hafa fallið frá skyndilega. Við sjáum enga vísbendingu um að það hafi verið vegna nýlegrar ígræðslu hans,“ sagði í yfirlýsingu sem spítalinn í Boston sendi frá sér seint á laugardag.

Í fyrsta sinn í sögunni tókst skurðlæknum á Massachusetts General Hospital að græða erfðabreytt nýra úr svíni í Slayman, sem þá var 62 ára gamall og með nýrnasjúkdóm á lokastigi.

Vonarljós líffæraþega

„Slayman verður um ókomna tíð talinn vonarljós ótal margra líffæraþega um allan heim og við erum honum innilega þakklát fyrir traust hans og vilja til að efla svið líffæraflutninga,“ segir í yfirlýsingu spítalans.

Líffæraskortur er viðvarandi vandamál um allan heim og Mass General sagði í mars að á biðlista sínum eftir nýrnaígræðslu væru yfir 1.400 sjúklingar.

Nýrað sem notað var í ígræðsluna var frá líftæknifyrirtækinu eGenesis í Massachusetts og hafði verið breytt. Skaðleg svínsgen voru fjarlægð úr nýranu auk þess sem að ákveðnum mannagenum var bætt við, að sögn sjúkrahússins.

Slayman, sem glímdi við sykursýki 2 og mjög háan blóðþrýsting, hafði fengið ígrætt nýra árið 2018 en það tók að bila fimm árum síðar.

Mynd tekin þann 16. mars af téðu svínsnýra, sem Slayman …
Mynd tekin þann 16. mars af téðu svínsnýra, sem Slayman fékk grætt í sig. AFP

Líffæri frá öðrum dýrategundum?

Líffæraígræðsla úr einni dýrategund í aðra er stækkandi svið í læknisvísindunum. Kallast það á ensku „xenotransplantation“.

Um mánuði eftir aðgerðina á Slayman, framkvæmdu skurðlæknar á NYU Langone Health í New York svipaða ígræðslu á Lisu Pisano, sem var með hjartabilun og nýrnasjúkdóm á lokastigi.

Svínsnýru hafa áður verið ígrædd í heiladauða sjúklinga en Slayman var fyrsti einstaklingurinn sem fékk slíkt í lifanda lífi.

Árið 2023 voru erfðabreytt svínshjörtu grædd í tvo sjúklinga við Háskólann í Maryland en þeir lifðu báðir skemur en tvo mánuði.

Mass sagði að ígræðsla Slaymans hefði verið framkvæmd samkvæmt stefnu sem kallast „notkun af mannúðarástæðum“ sem gerir sjúklingum með „alvarlega eða lífshættulega sjúkdóma“ kleift að nálgast tilraunameðferðir sem hafa ekki enn verið samþykktar af bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert