Áhugahvöt, tilgangur og vellíðan hjá börnum

Höfundar segja að með markvissri vinnu megi vekja áhuga og …
Höfundar segja að með markvissri vinnu megi vekja áhuga og hvetja börn frá unga aldri. Myndin er frá setningu barnamenningarhátíðar í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungt fólk þarf oft á hvatningu að halda. Hermundur Sigmundsson, Ívar Már Jónsson og Svava Þ. Hjaltalín hafa rannsakað þessi mál og skrifa hér um það hvernig hægt sé að hvetja ungt fólk til dáða.

Við heyrum rætt um að ungt fólk eigi erfitt með að finna sér tilgang. Fleiri ungir drengir sjá ekki þörfina á að halda áfram námi eftir grunnskóla. Fjöldi ungs fólks sem finnur fyrir vanlíðan og hefur jafnvel litla trú á framtíðinni eykst. Talað er um að ungt fólk vanti þrautseigju.

Vísindin

Í rannsóknum prófessors Hermundar Sigmundssonar og félaga síðustu 10 árin hefur verið einblínt á áhugahvataþætti og tengsl þeirra við tilgang og vellíðan.

Hermundur Sigmundsson, prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi …
Hermundur Sigmundsson, prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og HÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftirfarandi fjórir áhugahvataþættir hafa verið skoðaðir sérstaklega:

˜ Ástríða (sterkur áhugi). Rannsóknir þeirra félaga og annarra fræðimanna hafa sýnt fram á mikilvægi ástríðu fyrir árangur og vellíðan. Ástríða setur stefnu örvarinnar á ákveðin svið/færni og/eða þema.

˜ Þrautseigja. Angela Duckworth prófessor þróaði kenningu um þrautseigju (e. construct of grit). Með rannsóknum frá 2007 hefur hún sýnt fram á mikilvægi þrautseigju fyrir árangur. Meðan ástríða setur stefnu örvarinnar má segja að þrautseigjan sé styrkur og stærð örvarinnar. Þannig að þessir tveir þættir, ástríða og þrautseigja, eru nátengdir. Áhugi á viðfangsefni gerir það að verkum að einstaklingur notar meiri orku í það viðfangsefni (sjá mynd 1 Áhugahvöt og árangur).

˜ Gróskuhugarfar. Carol Dweck prófessor þróaði kenningu um grósku hugarfars (e. construct of mindset) í kringum 1972. Samkvæmt henni má skipta einstaklingum í þá sem annars vegar hafa gróskuhugarfar og þá sem hins vegar hafa festuhugarfar. Þeir sem hafa gróskuhugarfar trúa á vöxt/grósku einstaklinga og að vinnusemi og dugnaður gefi árangur. Þeir sem hafa festuhugarfar trúa ekki á vöxt/grósku, heldur trúa þeir því að erfitt sé að skapa breytingar hjá einstaklingum. Gróskuhugarfar kennara hefur jákvæð áhrif á gróskuhugarfar nemenda.

Prófessor Hermundur Sigmundsson og félagar hafa þróað mælitæki sem mælir hjá einstaklingum frá 13 ára aldri til 80 ára og eldri ofangreinda þrjá þætti, ástríðu, þrautseigju og gróskuhugarfar. Þeir hafa einnig þróað sérstaka íhlutun til að efla þessa þætti, ég get eða „I CAN“.

˜ Trú á eigin getu (sjálfsgeta/mestringstrú) (e. self-efficacy). Albert Bandura, einn af þeim fjórum stóru innan sálfræðinnar, byggði upp kenningu um trú á eigin getu/mestringstrú árið 1977. Einn af mikilvægustu þáttum til að styrkja hana er að einstaklingur/barn nái árangri með ákveðna þætti (e. mastery experience). Það getur verið frá því að kunna 10 bókstafi og þeirra hljóð í að kunna 15 bókstafi og þeirra hljóð, sem sagt náð árangri. Trú á eigin getu styrkir mjög svo þá mikilvægu „ég get“-tilfinningu.

Svava Þ. Hjaltalín, sérkennari, læsisfræðingur og verkefnastjóri Rannsóknarsetursins Menntun og …
Svava Þ. Hjaltalín, sérkennari, læsisfræðingur og verkefnastjóri Rannsóknarsetursins Menntun og hugarfar við HÍ.

Þegar kemur að þáttum sem tengjast tilgangi og líðan hafa prófessor Hermundur Sigmundsson og félagar skoðað eftirfarandi þætti:

˜ Tilgangur (e. meaning in life). Þessi kenning var upprunalega þróuð af Viktori Frankl. Það hefur sýnt sig að tilgangur er mikilvægur fyrir vellíðan einstaklinga og er há fylgni milli ofangreindra þátta (r = 0,66). Seinna þróaði Michael F. Steger kenninguna og einnig mælitæki varðandi tilgang.

˜ Vellíðan (e. flourishing), (blómstra). Þessa kenningu þróaði Diener, einn af þeim stóru innan jákvæðrar sálfræði. Kenningin snýst um vellíðan einstaklinga.

Gífurlegur áhugi er fyrir þessum þáttum, áhugahvataþáttum og þáttum sem tengjast tilgangi og vellíðan bæði á meðal bachelor- og meistaranema í sálfræði við NTNU (Norges Teknisk-Naturvitenskapelige Universitet) í Þrándheimi. Nemendurnir fá tækifæri til að taka virkan þátt með eigin rannsóknarverkefnum í þróun þessara áhugaverðu sviða undir leiðsögn fræðimanna.

Ívar Már Jónsson, framhaldsskólakennari og verkfræðingur.
Ívar Már Jónsson, framhaldsskólakennari og verkfræðingur.

Möguleikar

Við teljum að með markvissri vinnu með áhugahvataþætti, allt frá unga aldri, megi skapa þekkingu á þessum mikilvægu þáttum hjá börnum. Við vitum að öll færniþróun þarfnast mikillar sérhæfðrar þjálfunar til að byggja upp netverk af taugafrumum í mannsheilanum. Í rannsóknar- og þróunarverkefninu Kveikjum neistann er frá fyrsta skóladegi í grunnskóla unnið með hugtök eins og hugrekki, þrautseigju, kærleika, og vináttu. Í verkefninu eru einnig ástríðutímar þar sem börn fá að velja milli fimm ólíkra þátta eins og til dæmis myndlist, tónlist, handmennt, smíðar og heimilisfræði. Að mati hins virta fræðimanns Csikszentmihalyi (1975) (mynd 3) skapast hér flæði (e. autotelic activity) eða börn komast í flæði þegar þau fá að velja viðfangsefni og fá áskoranir miðað við færni. Flæði hefur jákvæð áhrif á þætti eins og sköpun, framleiðni og vellíðan. Einnig vinnur undirritaður prófessor Hermundur Sigmundsson með þessa þætti meðal unglinga í Noregi í samstarfi við MOT.no, samtök sem vinna að því að styrkja ungt fólk fyrir lífið. Samtökin eru starfandi í 305 skólum og ná samtals til yfir 75.000 nemenda í 8., 9. og 10. bekk. Þar notar hann meðal annars með góðum árangri íhlutunina „ég get“ til að efla áhugahvöt og þrautseigju hjá þátttakendum (sjá mynd 2).

Hermundur er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og HÍ, Ívar Már er framhaldsskólakennari og verkfræðingur og Svava sérkennari og verkefnastjóri Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar, HÍ.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert