Jóhanna ætlar ekki á kjörstað

Verið var að undirbúa kosninguna í Ráðhúsinu í gær.
Verið var að undirbúa kosninguna í Ráðhúsinu í gær. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segist í samtali við Fréttablaðið í dag ekki sjá neinn tilgang í því að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin á morgun. Forsvarsmenn stjórnarandstöðunnar hvetja fólk til að mæta á kjörstað og hafna lögunum.

„Mér finnst þetta markleysa og finnst mjög dapurlegt að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan frá stofnun lýðveldisins verði um lög sem þegar eru orðin orðin úrelt. Í ljósi þess sé ég engan tilgang í að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu," hefur Fréttablaðið eftir Jóhönnu. „Enginn talar lengur fyrir samþykkt þessara laga, málið hefur breyst það mikið á síðustu vikum og við erum nú þegar með í hendi hagstæðari lausn sem nemur sjötíu milljörðum króna í greiðslubyrði."

Icesave-málið yrði ekki í lausu lofti

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, greiðir atkvæði gegn Icesave-lögunum og hann vonast til að lögin verði felld með afgerandi hætti. Útilokað sé að fresta atkvæðagreiðslunni og umræða um slíkt hafi verið afar óheppileg. Þá væri of seint að semja upp á nýtt, tíminn væri í raun runninn út.

Sigmundur Davíð sagði við Morgunblaðið að ef lögin yrðu felld gætu Íslendingar vonandi byrjað með hreint borð, ef Hollendingar og Bretar hefðu áhuga á frekari viðræðum. „Nú ef ekki, þá er málið ekkert í lausu lofti. Þá hefur þetta allt sinn eðlilega farveg sem er sá að það er gerð krafa í Tryggingarsjóð innistæðueigenda og í þrotabú Landsbankans, þar sem eiga að vera nægar eignir til að standa undir þessu,“ sagði hann. Þá minnti hann á að allir, þ.m.t. Bretar og Hollendingar hefðu hag af því að efnahagslíf Íslands rétti úr kútnum enda fengist þá meira upp í þrotabú Landsbankans. Helsta verkefni ríkisstjórnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna væri að einbeita sér að uppbyggingu efnahagslífsins, en því verkefni hefði hún ekki sinnt.

Mæti á kjörstað og felli Icesave-lögin

Á fundi með trúnaðarmönnum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í gær sagðist Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, efast um að í nokkru öðru lýðræðisríki en Íslandi talaði ríkisstjórn af jafnmikilli léttúð um janfmikilvægt mál og þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave. Hann sagði brýnt að íslenska þjóðin sýndi í verki að hún léti ekki kúga sig, kjósendur ættu að mæta á kjörstað og fella Icesave-lögin.

Á Alþingi í gær gagnrýndi Bjarni ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki veitt skýr svör um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hann sagði alveg skýrt að allar tillögur um að fresta atkvæðagreiðslunni yrðu stöðvaðar af stjórnarandstöðunni. Bjarni sagði að það hlyti að vera augljóst að það væri í þágu hagsmuna þjóðarinnar að fella samningana. „Þetta hlýtur að vera augljóst nú þegar liggur fyrir vilji Breta og Hollendinga til að ná samkomulagi sem er miklum mun hagstæðara en þeir samningar sem kláraðir voru í lok síðasta árs,“ sagði Bjarni.

Vænlegast ef komið væri nýtt samkomulag

„Færa má mjög sterk rök fyrir því að samningsstaða Íslands sé kannski sú sterkasta einmitt í augnablikinu, sterkari en bæði fyrr og síðar vegna þess að það hefur verið vilji til að reyna að fá þetta mál á hreint núna í þessari lotu. Það er alls ekki gefið að hún sé betri þegar þrýstingurinn af þjóðaratkvæðagreiðslunni er að baki eftir helgi,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á Alþingi í gær. Ekki náðist í ráðherrann í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Steingrímur sagði að þó að tæknilega séð væri hægt að hætta við atkvæðagreiðsluna fram undir föstudagskvöld væri næsta víst að hún færi fram. Hann vilji ekki gefa kjósendum leiðbeiningar um hvað þeir ættu að kjósa en langvænlegast væri, að nýtt samkomulag lægi á borðinu þannig að „við vissum nákvæmlega hvað við hefðum frekar en að vera í óvissu um það sem gerist eftir helgina ef það er allt mjög laust í reipunum.“

Fjármálaráðherra hljóti að segja af sér

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, sagði mikilvægt að kjósendur sendu sterk skilaboð um að þjóðin stæði saman og hafnaði Icesave-lögunum. Þeir samningar sem nú yrði kosið um væru þar að auki verri en eldri samningar. Birgitta segir að verði Icesave-lögunum hafnað hljóti Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að segja af sér.

Birgitta sagði að eftir neitun þjóðarinnar tækju við áframhaldandi samningaviðræður við Breta og Hollendinga. „Ég held það verði enginn dómsdagur,“ sagði hún.

Birgitta vill að þingmannanefnd fari þegar á mánudaginn til Hollands og Bretlands til að ræða við þarlenda þingmenn. Hún hafi stungið upp á þessu formlega í nóvember 2009 og þá hafi hún haft boð frá þingmanni í breska Verkamannaflokknum um að aðstoða við að koma slíkum fundum á. Hann hafi raunar verið búinn að bjóða Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur hið sama, mörgum mánuðum fyrr, en hún ekki viljað þiggja boðið. „Það hefði verið gagnlegt að koma einhverju svona í gang þá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina