Eiga rétt á að kjósa um borð

Icesave.
Icesave. Morgunblaðið/Ómar

Samtökin Samstaða þjóðar gegn Icesave, sem stóðu að undirskriftasöfnuninni á kjosum.is, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem bent er á að samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eigi sjómenn rétt á að kjósa um borð, komist þeir ekki á kjörstað, sem og aðrir þeir sem ekki eigi tök á að kjósa á kjördegi eða utan kjörfundar.

Vísa samtökin í 60. grein laga um kosningar til Alþingis, þar sem segir:

„Kjósandi, sem er í áhöfn eða farþegi um borð í íslensku skipi í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, má kjósa um borð í skipinu. Skipstjóri eða sá sem hann tilnefnir skal vera kjörstjóri."

Samkvæmt 58. grein sömu laga sé þeim, sem ekki eiga kost á að komast á kjörstað, heimilt að kjósa þar sem þeir dvelja, hvort sem er á heimilum, dvalarheimilum, sjúkrahúsum eða fangelsum.

„Innanríkisráðuneyti ber að tryggja að öll kjörgögn séu til staðar til afhendingar berist ósk um slíkt. Í tilviki sjómanna getur skipstjóri sem kjörstjóri óskað eftir slíku og verður jafnframt að tryggja afhendingu kjörgagna. Ástæða er til að skora á sjómenn að krefjast þessa réttar síns og að minna forstöðumenn sjúkrahúsa, dvalarheimila og fangelsa á að tryggja skjólstæðingum sínum þessi kosningaréttindi," segir í yfirlýsingu Samstöðu þjóðar gegn Icesave.

mbl.is

Bloggað um fréttina