ESA stefnir Íslandi

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ákveðið að stefna íslenskum stjórnvöldum fyrir dóm vegna Icesave-deilunnar.

Íslensk stjórnvöld svöruðu bréfi Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna Icesave-deilunnar við Breta og Hollendinga í lok september síðastliðins þar sem greint var frá vörn Íslands í málinu. Þá einkum að engin ríkisábyrgð hefði verið á Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta og því hefði íslenskum stjórnvöldum ekki verið skylt að bæta innistæður sem sjóðurinn reyndist ekki geta greitt í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Á vef ESA kemur fram að stofnunin hafi ákveðið að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn þar sem stofnunin telur að Íslandi beri að tryggja að innistæðueigendur fái greiddar að lágmarki 20.887 evrur í samræmi við tilskipun um innistæðutryggingar.

Íslensk stjórnvöld höfðu svarað athugasemdum ESA efnislaga og hvatt til þess að beðið væri með að taka ákvörðun þar sem greiðslur úr þrotabúinu væru hafnar og líklegt væri að eignir myndu duga fyrir kröfum.

„ESA heldur við fyrri afstöðu sína. Ísland verður að uppfylla þær skyldur sem það hefur undirgengist með aðild að EES-samningnum. Því ber að tryggja greiðslur til allra innstæðueigenda, án mismununar, samkvæmt þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í tilskipuninni um innistæðutryggingar,“ er haft eftir Oda Helen Sletnes, forseta Eftirlitsstofnunar EFTA, í fréttatilkynningu.

Þrotabú Landsbankans er byrjað að greiða kröfur innistæðueiganda. Samkvæmt upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum verða umræddar kröfur ekki greiddar að fullu fyrr en í lok ársins 2013.

„Einn megintilgangur tilskipunarinnar er að forðast að innistæðueigendur þurfi að sæta því að leita réttar síns við þrotabúskipti. Rúm þrjú ár eru liðin frá því að innistæðueigendur glötuðu aðgangi að reikningum sínum og kröfur hafa ekki enn verið greiddar að fullu. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að fara að ákvæðum tilskipunarinnar um innistæðutryggingar,“ segir forseti Eftirlitsstofnunar EFTA.

Með því að vísa málinu til EFTA-dómstólsins hefur ESA hafið meðferð dómsmáls þar sem Íslandi gefst tækifæri á að færa rök fyrir máli sínu fyrir EFTA-dómstólnum. Málsaðilar munu skiptast á skriflegum málflutningsskjölum og færa rök fyrir máli sínu í munnlegum málflutningi. Þegar meðferð dómsmálsins er lokið mun EFTA-dómstóllinn kveða upp dóm um það.

Ef EFTA-dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi gerst brotlegt við EES-samninginn þarf Ísland að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fara að niðurstöðu dómsins eins fljótt og auðið er.

Sjá  nánar hér

mbl.is