Orðinn meiri björn en blettatígur

Ólafur Haraldsson kastar úr Kleifarhólma. Þarna þarf löng köst og …
Ólafur Haraldsson kastar úr Kleifarhólma. Þarna þarf löng köst og að sama skapi er þetta þekktur stórfiskastaður. Ljósmynd/ES

Hann kom fyrst í Mývatnssveitina rétt fyrir 1990. Fyrsti túrinn var afskaplega eftirminnilegur. „Ég man alltaf dagsetninguna. Þetta var 7. júlí, sem er afmælisdagur systur minnar. Kolbeinn Grímsson hafði sent mig með fjórar straumflugur. Og við fórum þrír saman og gistum í tjaldi. Þegar við vöknuðum þá var tíu sentimetra snjór yfir öllu. Tjaldið var farið að þrengja að okkur og orðið afskaplega lítið pláss í því. Það var mjög sérstakt að vakna við þessar aðstæður, en sólin var fljót að vinna á þessu þegar hún fór að skína.“ Svona minnist veiðimaður vikunnar, Ólafur Haraldsson, fyrsta morguns í Laxá í Mývatnssveit. Þeir skipta hundruðum síðan og hann hefur haldið tryggð við ána allar götur síðan og raunar hún líka við hann.

„Þennan fyrsta túr rötuðum við ekki neitt og köstuðum bara á allt og þetta var svo svakalega spennandi. Við fengum dásamlegt veður og engin fluga. Stærðin á veiðisvæðinu var svo mikil að maður varð hreinlega dolfallinn. Maður var bara eins og hvolpur. Svo setti ég í fisk sem eiginlega innsiglaði samband mitt við Laxá. Ég hafði aldrei séð svona stóran urriða áður. Hann var þrjú og hálft pund á vigtinni og ég veiddi hann í Vatnsgjá. Ég var ekki búinn að veiða neitt rosalega mikið á flugu en ég man að þarna náði ég að kasta löngu kasti og undir trjáhríslu. Kastið var erfitt fyrir mig en það tókst og hann tók eins og í einhverjum bandarískum fluguveiðiþætti. Þar með var maður orðinn Laxármaður. Við veiddum einhverja nokkra titti í viðbót en þessi fiskur var mikil upplifun fyrir mig,“ segir Ólafur Haraldsson, veiðimaður vikunnar, þegar hann rifjar upp fyrsta veiðitúrinn í Mývatnssveitina.

Var sóttur til að kasta á fiskinn

„Mig langaði strax aftur.“ Hann lét drauminn rætast og setti saman hóp og sá hópur fór til veiða ári síðar. Fólki gekk misvel að fóta sig í veiðinni í Laxá, en Óli náði sambærilegum fiski við sambærilegar aðstæður. Félagi hans hafði séð fallegan fisk velta sér á speglinum við vatnsmælinn, beint út af veiðihúsinu. „Ég var sóttur af því að ég var talinn geta kastað lengst. Og ég náði út á hann og það var mjög flottur fiskur. Þessi hópur náði ekki sambandi við Laxá. Flestum fannst þetta erfitt og jafnvel bara leiðinlegt. Fannst þetta mikið labb og veiðisvæðið of stórt.“ Þessi hópur flosnaði upp en Óli hélt áfram að koma og jafnvel oft á sumri. Þá var sá háttur gjarnan hafður á að hringja bara og kanna hvort eitthvað væri laust. Ef svo var þá brenndi hann norður.

„Svo var það fyrir rúmlega tuttugu árum að afar góður og skemmtilegur hópur tók sig saman og keypti holl í Laxá. Við veiddum saman þarna mörg ár og eins og gefur að skilja hefur kvarnast úr þeim hópi en nýir félagar komið í staðinn og við veiðum þarna enn. Þetta er sá túr sem ég myndi síðast sleppa. Ég myndi ekki skipta á þessu fyrir neina laxveiði. Þetta er svo ótrúlega sérstakt að vera þarna og þetta er engu líkt.“

Klisjan um félagsskapinn er sönn

Óli og félagar veiddu Mývatnssveitina í vor og veiddu vel. Fiskurinn var vel haldinn og auðvitað var veiðin tímaskipt og stundum svæðaskipt en hollið veiddi vel. „Þetta hefur mikið breyst frá því að maður fór þarna um eins og blettatígur og elti hvern mögulegan hyl og röst. Nú er maður meira eins og bjarndýr. Hreyfir sig hægar og bíður á fossbrúninni.“ Hér hlær Óli dátt, sennilega að báðum dýrategundum sem hann líkir sér við. Hann leggur áherslu á það að gamla klisjan um félagsskapinn og umhverfið, eigi einfaldlega alltaf betur og betur við. „Það sem er svo magnað við Laxá er að hún kemur alltaf á óvart. Maður gengur aldrei að neinu vísu. Reyndustu veiðimenn í Laxá eru sammála um að lærdómurinn er endalaus. Það er sama hversu oft þú kemur að veiðistað sem þú gjörþekkir. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt.“

Óli á sér auðvitað uppáhaldsstaði. Þessi gull eins og hann kallar þá. Fyrst nefnir hann svæðin Geirastaði og Hofstaðaey. „Svo finnst mér líka frábært að fara niður í Steinbogaey og veiða Lambeyjarstrenginn og alla þá möguleika sem eru þar á stuttum kafla í ánni. Já sennilega líður mér orðið best þar. Stundum man maður eftir vikinu sem maður ætlaði í á síðasta ári en nennti ekki. Kannski nennir maður næsta ár, eða ekki.“

Nú eru það Rektor og Black Ghost

Þegar Óli fór í sinn fyrsta túr í Mývatnssveitina var hann með eitt plastbox með fjórum straumflugum í. Þetta voru Hólmfríður, Rektor, Black Ghost og Nobbler. Hann segist eiginlega vera kominn aftur þangað. Veiðir mest með straumflugu en í dag eru það fyrst og fremst Rektor og Black Ghost sem hann kýs. Hann segist hafa gengið í gegnum mörg skeið í veiðinni fyrir norðan. „Maður var að hnýta á veturna tuttugu til þrjátíu týpur af flugum og var að prófa allt. Svo voru alltaf að koma nýjar flugur og það þurfti að prófa allt. En ég er mikill straumflugukall. Ég hugsa að um sjötíu prósent af öllum mínum köstum séu með slíkum flugum, hvort sem er með flotlínu eða sökkenda. Tökurnar eru svo magnaðar.“

En þú fórst í gegnum púpurnar og allt hitt?

„Já, biddu fyrir þér og það er það sem oft gefur langbest. Andstreymisveiði og veiða mjög nálægt sér. En þetta er svolítið þannig að hver og einn þarf að finna sitt lag og uppáhaldsaðferð. Ég er þannig gerður að ef ég fæ ekki fisk í einum stað þá frekar færi ég mig en að breyta um tækni. Maður þarf að reyna að hugsa ofan í ána. Í gegnum árin hefur maður séð aðstæður þar sem fiskurinn liggur bara við botninn bak við stein og þá er jafnvel eina leiðin að komast að honum með þungum púpum.“

Síðastliðin tólf ár hefur Óli og hópurinn hans mætt í Laxá í blábyrjun tímabilsins í byrjun júní, þegar sumarið er varla farið að setja mark sitt á Norðurlandið. Þá er allra veðra von, allt frá tuttugu stiga hita og sól yfir í frost og snjó. „Veiðin á þessum tíma er yfirleitt mjög góð en þetta er allt annar heimur en þegar komið er sumar í Mývatnssveitinni.“

Óli með sinn stærsta fisk úr Laxá. Þetta er 72 …
Óli með sinn stærsta fisk úr Laxá. Þetta er 72 sentimetra fiskur sem tók á Mjósundi. Ljósmynd/Aðsend

Hugvísindi frekar en raunvísindi

Hefur þú upplifað miklar breytingar á lífríkinu þann tíma sem þú hefur verið við Laxá?

„Þetta eru nú meira hugvísindi en raunvísindi að mínu mati. Alla vega hjá veiðimönnum. Auðvitað hefur maður upplifað þær sveiflur sem hafa orðið. Svo hefur þetta verið alls konar. Mýið átti að vera útdautt, vatnið ónýtt, kísilgúrverksmiðjan átti að hafa skemmt það. Svo snerist það við og niðurlagning verksmiðjunnar átti að hafa skemmt allt og þar fram eftir götunum,“ segir Óli sposkur.

Hann vitnar til félagslegrar breytingar fremur en líffræðilegrar. Hann minnir á að farsímasamband hafi batnað mikið og það finnst honum óþarfi. Hann man þá tíð þegar menn þurftu að labba upp að fánastönginni við veiðihúsið og helst standa á tám til að fá einn kubb í merki á símann. „Nú liggur við að þurfi að fara að setja í veiðileyfin, vinsamlegast hafið slökkt á farsímanum.“

Magnað Mjósund

Einhver dulmagnaðasti veiðistaður Laxár þarna efra er Mjósundið. Efsti veiðistaðurinn á svæðinu. Það vita allir sem hafa veitt Mývatnssveitina að þar eiga heima stórir urriðar, afskaplega stóri urriðar og það þarf löng köst til að vekja áhuga þeirra. Virkilega löng köst. „Fiskarnir þarna eru ótrúlega flottir. Þeir eru hnausþykkir og líkastir stórum sjóbirtingum. Ég náði þarna einum 72 sentímetra fyrir nokkrum árum og hann var að mig minnir einn sá stærsti sem kom úr Mývatnssveitinni það árið. Ég kastaði 45 gráður niður fyrir mig og þetta eru köst sem fara alveg með öxlina. Það þurfa að vera öll skilyrði með manni og það var þannig þennan morgun. Við vorum búnir að sjá þá velta sér alveg við Haganeslandið sem er þarna á móti. Loksins náði ég þarna yfir með hagstæðum andvara á vinstra eyrað og loksins sveif straumflugan alla leið yfir strenginn í lygnuna hinum megin. Hún lenti á nákvæmlega á þeim stað sem ég vildi og BANG!“

Stór urriði á leið í háfinn í Vörðuflóa.
Stór urriði á leið í háfinn í Vörðuflóa. Ljósmynd/ES

Það þekkja það allir sem veitt hafa í Laxá í Mývatnssveit að lengstu köstin þar eru á Þúfunni í Hofstaðaey og svo auðvitað á sjálfu Mjósundinu. Þarna eru líka stórir fiskar. Svo stórir að flestir reyna að þenja köstin þarna. Það gengur alls ekki hjá öllum veiðimönnum og sennilega fæstum. En takist það eru verðlaunin oft glæsileg eins og sjá má á myndinni þar sem Ólafur hampar stórfisknum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert