„Ég veiði líka litla fiska“

Nils Folmer með einn af 29 löxum sem hann hefur …
Nils Folmer með einn af 29 löxum sem hann hefur veitt á Íslandi og var lengri en 100 sentímetrar. Ljósmynd/Aðsend


Veiðimaður vikunnar er stórveiðimaður. Í orðsins fyllstu merkingu. Hann er danskur og heitir Nils Folmer Jörgensen. Hann hefur veitt á Íslandi í sextán ár og telur Ísland einfaldlega besta kostinn þegar kemur að laxveiði í heiminum.

Hann er nýbúinn að uppfæra listann sinn yfir laxa sem hann hefur veitt á Íslandi og eru hundrað sentímetrar eða lengri. Talan núna stendur í 29 löxum og miðað við hvað hann á eftir að veiða í sumar gæti sú tala hækkað.

Nils hlaut sitt laxveiðiuppeldi í Noregi en segir að fiskeldið sé meira og minna búið að stórskaða veiðina þar. Nils veiðir margar ár á Íslandi. Laxá í Aðaldal er í miklu uppáhaldi hjá honum og skyldi engan undra því hann hefur landað mörgum löxum yfir hundrað sentímetra á Nessvæðinu. Hann veiðir líka Vatnsdalsá, Hofsá og Víðidalsá svo einhverjar séu nefndar.

Stærsti lax sem veiddist á Íslandi í fyrra. Nils með …
Stærsti lax sem veiddist á Íslandi í fyrra. Nils með 111 sentímetra fisk úr Harðeyrarstreng í Víðidalsá. Ljósmynd/Jóhann Hafnfjörð

Athyglinni fylgja kostir og gallar

„Ég veiði líka litla fiska,“ segir Nils í samtali við Sporðaköst og brosir. „Athyglin er hins vegar mest þegar maður veiðir þá stærstu og það er alveg skiljanlegt.“ Honum finnst alveg nóg um athyglina og segir að henni fylgi kostir gallar. „Ég hef alveg heyrt ljótt umtal um mig og alls konar kjaftasögur. En langflestir af þeim veiðimönnum sem ég hef kynnst og umgengst eru góðir vinir mínir hér á Íslandi.“

Fyrstu kynni hans af Íslandi voru umfjallanir í veiðitímaritum og myndbönd sem hann sá úr Miðfjarðará og úr Laxá í Aðaldal. „Ég kom í fyrsta skipti sumarið 2002 til að veiða á Íslandi og nú veiði ég bara Atlantshaflax á Íslandi. Hér eru einfaldlega mestu gæðin þegar lax er annars vegar. Íslendingar eru afar vingjarnlegir og náttúran er einstök.“ Hann reynir að verja öllu sumrinu á Íslandi, frá miðjum júní fram í september. „Ég veiði mjög marga daga og er einnig í leiðsögn, en hef minnkað það. Þegar ég ræð mig í vinnu geri ég vinnuveitanda mínum grein fyrir því að ég sé á Íslandi allt sumarið. Það er bara þannig.“

Með einn stubb úr Hofsá. Já hann veiðir svoleiðis fiska …
Með einn stubb úr Hofsá. Já hann veiðir svoleiðis fiska líka. Ljósmynd/Aðsend

Metið í Nesi

Það eru ekki margir sem geta fetað í þín fótspor þegar kemur að stórlaxi. Geturðu gefið veiðimönnum ráð um hvernig er hægt að auka líkurnar á því að ná fiski yfir tuttugu pund eða hundrað sentímetra?

„Það er margt sem spilar saman þarna. Mesta athyglin er alltaf á stóru fiskunum. Enginn hefur áhuga á að heyra af litlu fiskunum. Ég veiði líka litla fiska. Til dæmis sumarið 2016 í Laxá í Aðaldal þá veiddust ótrúlega margir fiskar hundrað sentímetra langir og stærri. Ég kom um miðjan júlí og gerði flotta veiði. Landaði nítján fiskum á þremur dögum. Það var bara einn þeirra sem náði hundrað sentímetrum sem tölfræðilega var mjög lélegt þetta árið. Enginn talaði hins vegar um þennan fjölda. Svo kemur maður í september og veiðir fjóra fiska sem eru yfir hundrað sentímetrar og þá allt í einu er mikill áhugi á því. Þeir voru 101, 104, 105 og 108 sentímetrar. Ég held reyndar að það sé met í Nesi að landa á einum degi fjórum löxum yfir hundrað sentímetra. En þetta var svakalegur dagur og túr sem gleymist aldrei. Ég landaði 27 löxum í þeim túr og samtals voru sex yfir hundrað sentímetrar.

Flugan Meridan sem Nils hefur verið að nota í sumar. …
Flugan Meridan sem Nils hefur verið að nota í sumar. Vængurinn er úr hárum af íslenskum hesti. Ljósmynd/Aðsend

En varðandi þessa stóru þá hef ég sjálfur verið að velta þessa fyrir mér, af hverju ég sé alltaf að rekast á stórlaxa. Ég er á þeirri skoðun að ég njóti einhverrar blessunar frá æðri máttarvöldum í því samhengi. Auðvitað skiptir tækni og öll nálgun máli í laxveiði og kannski ekki síst þegar kemur að stórum fiski. Ég hef verið að leiðsegja fólki og skil mjög vel að sumir eiga í erfiðleikum með að setja í þá stóru. Ef fólk er ekki góðir kastarar og splassar mikið í vatnið og notar stórar túpur og svera tauma þá verður þetta erfiðara.“

Hann segir þetta snúast um að fara varlega. „Þetta er kannski svipað og ef þú ætlar að veiða hreindýr, þá þarftu að læðast. Þarft að vera nánast ósýnilegur.“

Hann segir fleira koma til. Líkurnar aukast eftir því sem veiðimaðurinn þekkir ána betur og veit hvar helst er stórlaxavon. Svo eru veiðistaðir misjafnlega erfiðir, það er að segja til að fá laxinn til að taka. En hann elskar slíka veiðistaði og áskorunina sem þeir eru.

Tæknin skiptir miklu máli

Þegar þú nálgast stað þar sem þú veist að stórlax heldur sig. Hvernig berðu þig að?

„Ég hef alltaf frá því ég byrjaði að veiða hugsað mikið um tæknina. Ég set ekki bara einhverja flugu undir og kasta. Ég fer mjög vandlega yfir allt sem ég ætla að gera. Þegar ég nálgast hyl þar sem ég veit að getur verið risafiskur þá huga ég að mörgu. Margir hafa spurt mig út í þetta og það hefur fengið mig til að hugsa um það. Ég vanda valið á flugunni og vanda köstin og það skiptir miklu máli hvernig maður leggur fluguna fyrir hann.“

Meridan ný fluga og fyrsti kostur

Á þessum tíma árs, síðsumars, er einhver ein fluga fyrsti kostur?

„Í sumar er það ný fluga sem ég hef verið að nota, Meridan kalla ég hana. Vængurinn er úr íslenskum hesti og sama má segja með Radian. Mér finnst það efni virka mun betur en refur. Við höfum prófað Meridan í Nesi í sumar á dögum þar sem ekkert var að gerast og það hefur virkað flott.“

Hann segir Nessvæðið frábæran stað til að prófa flugur. Það hafi verið mjög mikil áskorun að veiða svæðið í sumar. „Maður gerir ein mistök og splassar vatnið og þá er möguleikinn farinn. Þetta er það viðkvæmt.“

Hann segist hafa séð fólk þrákasta á laxa og prófa alls konar flugur, en fyrsta kastið hafi þegar eyðilagt staðinn. Þá skipti ekki máli hvaða fluga fari undir. Fiskurinn tekur ekki eftir að búið er að berja staðinn með gusugangi.

Nokkrar flugur eftir Nils eru vel þekktar meðal veiðimanna. Þar má nefnda Ernu, Autumn Hooker, Radian og margar fleiri. Hann hefur sjálfur veitt á þessar flugur í mörgum íslenskum ám en finnst alltaf að Nessvæðið í Aðaldal sé besta tilraunastofan.

Ævintýrið í Víðidal

„Ég á tvo túra eftir. Það er Vatnsdalur og Víðidalur. Ég elska þessar ár og þó að það sé treg veiði þar þá er maður að leita að stórum fiski. Ég gleymi aldrei síðasta morgninum okkar þar í fyrra. Ég var að veiða með Jóhanni Hafnfjörð leigutaka og við vorum á neðsta svæðinu. Þar eru tveir þekktir stórlaxastaðir, Harðeyrarstrengur og Dalsárós. Ég landaði fallegri tveggja ára hrygnu sem var 85 sentímetrar. Jói var alltaf tala um stóran fisk í Dalsárósi svo við fórum þangað. Ég setti í 106 sentímetra lax og landaði. Við vorum alsælir. Þetta var stærsti fiskurinn úr ánni það sumarið. Svo ákváðum við að enda í Harðeyrarstrengnum. Þá setti ég fljótlega í risalax og það voru mikil átök en Jói náði að háfa hann og þetta reyndist 111 sentímetra lax og sá stærsti sem veiddist á Íslandi það sumarið.“ Nils ljómar þegar hann talar um þetta ævintýri. „Það var eins gott að Jói var með mér, annars hefði enginn trúað mér,“ og aftur brosir Nils. Svo verður spennandi að sjá hvað sá danski gerir í stórlaxaánum í Húnaþingi síðar í mánuðinum. Þar hefur verið mjög erfitt sumar. En sumir njóta meiri blessunar en aðrir. Það kemur í ljós síðar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert