Færri laxakallar - fleiri ungir menn

María og Ólafur með Giant Trevally. Þessir fiskar eru svakalegir …
María og Ólafur með Giant Trevally. Þessir fiskar eru svakalegir sprett fiskar og Ólafur hef lent í því að missa tæpa 300 metra út af hjólinu á innan við tíu sekúndum. Ljósmynd/Einkasafn


Hjónin María Anna Clausen og Ólafur Vigfússon eru veiðimenn vikunnar. Þau eiga og reka stærstu veiðiverslun á Íslandi, sem er Veiðihornið í Síðumúla. Þau eru bæði miklir ástríðuveiðimenn og leggja stund á nánast allan veiðiskap sem hægt er að stunda á Íslandi og láta ekki þar staðar numið.

Þegar veiðitíminn hefst á vorin þá hefst vertíðin þeirra. Og spurt er: Hvernig rekast þeir á veiðimaðurinn og verslunarmaðurinn?

María er fyrri til að svara. „Þetta er náttúrlega erfitt. Það væri gaman að vera alltaf að veiða. En á móti kemur að það er líka gaman að vinna í búðinni og þjóna þar viðskiptavinum sem eru að fara að veiða.“

Þau eiga einn fastan túr á hverju sumri og þá er farið í Vatnsdalsá. „Það var frekar rólegt í ár. En þannig er þetta. Það koma góð ár og það koma slæm ár,“ heldur María áfram.

Ólafur blandar sér í þetta og segist ekki sammála þessu með slæmu árin. María hlær. „Við buðum með okkur vinum okkar frá Bandaríkjunum. Ég sagði við þá að við værum búin að veiða í Vatnsdalnum í áratugi. Hér hefðum við upplifað góða túra og rólega túra, en aldrei slæma túra.“

María er sammála þessu; „En veiðin í ár var virkilega róleg.“

„Það var samt gaman í Vatnsdalnum. Því ef laxinn klikkar þá er svo mikið af bleikju og hún var stór og flott núna og sama má segja um sjóbirtinginn og svo er þar líka staðbundinn urriði og þá fer maður bara í plan B,“ segir Óli og það er greinilegt þegar talað er um Vatnsdalsá að hún á mikinn sess í huga hans.

Þú ert ekki týpan sem verður fúl ef þú setur í bleikju í laxveiðiá?

„Nei, alls ekki.“ Hann brosir.

En nærð þú Óli að sinna veiðimanninum í þér yfir sumarið?

„Þetta er eini stangaveiðitúrinn sem ég fer í yfir sumarið, á Íslandi.“

Og er það ekki pínu erfitt?

Ég næ ekki að klára spurninguna, þegar svarið er komið. „Jú.“

Við hlæjum öll. Óli heldur áfram. „Þetta er tuttugasta og fyrsta sumarið okkar á búðargólfinu. Ég fæ enn þá svo mikið út úr því að vera á gólfinu og hjálpa fólki. Maður er innan um veiðimenn og maður er að hlusta á veiðisögur og upplifir spennuna og eftirvæntinguna. Við erum að gefa fólki ráð með flugur og það er ótrúlega gefandi þegar fólk kemur svo til baka og segir; „Óli manstu flugan sem þú seldir mér þarna um daginn? Þvílíkt sem hún virkaði.“ Þetta er svo gaman. Það er eins og maður hafi veitt sjálfur.“ María grípur þetta á lofti brosandi og bætir við. „Já, þetta er svo gaman þegar maður fær þessi samtöl eða hringingar eða tölvupósta.“ Þau ljóma.

María með Trigger fish. Þessi tegund er kend við ferskju …
María með Trigger fish. Þessi tegund er kend við ferskju þar sem að liturinn í kringum munninn minnir á ferskju. Stærsti Trigger sem María hefur veitt var hátt í tuttugu pund. Ljósmynd/Einkasafn

Eitt af því sem margar konur sem stunda veiði hafa nefnt við Sporðaköst í sumar er sú staðreynd að loksins sé orðið til mikið úrval af fatnaði og búnaði fyrir konur. Við beinum orðum okkar til Maríu.

„Ég held að við séum með langmesta úrvalið af vöðlum, jökkum og fatnaði fyrir konur.“

Óli tekur við; „Þetta var gjarnan þannig fyrir fáeinum árum að karlarnir endurnýjuðu vöðlurnar sínar og konurnar fengu gömlu vöðlurnar þeirra. Númer 46.“ Hér hlæja allir.

„Þetta er þannig að sumar konur eru fyrst núna að endurnýja. Fara úr gömlu vöðlunum af manninum og kaupa sér sínar fyrstu vöðlur. Ég verð alltaf mjög glöð þegar ég sé það gerast,“ segir María.

Bresku laxveiðiköllunum fækkar

Hvergi á Íslandi er hægt að lesa jafn vel í það hvernig veiðimarkaðurinn er að þróast og á gólfinu í Veiðihorninu. Hvaða þróun er að eiga sér stað?

„Við sjáum breytingu hvað varðar útlendingana. Gömlu laxveiðiköllunum er að fækka, finnst mér. Uppistaðan í þeirra hópi voru Bretar í gamla daga. Svo við Brexit þá hrundi pundið og króna styrktist og laxveiðin hefur á sama tíma verið erfiðari. Gömlu mennirnir eru að eldast og það er mjög lítil nýliðun í þessu sporti, bæði í Ameríku og Evrópu. Þeim hefur verið að fækka þessum gömlu viðskiptavinum, andlitum sem við höfum séð hér í tuttugu ár, er að fækka. En munstrið er að breytast því í staðinn eru að koma ungir strákar, mikið frá Skandinavíu á aldrinum tuttugu til þrjátíu ára. Einnig frá Mið-Evrópu, Austurríki, Sviss, Þýskalandi og fleiri löndum. Þeir eru gjarnan að kaupa Veiðikortið og eru að fara í silung og þá gjarnan upp á Arnarvatnsheiði eða sambærilegt. Þetta eru ástríðufullir og oft á tíðum virkilega flinkir veiðimenn. En við erum að sjá ákveðin straumhvörf í þessum hópi.“

Þetta eru væntanlega efnaminni viðskiptivinir?

„Já, klárlega en á móti eru þeir meiri veiðimenn. Þú ert kannski ekki endilega veiðimaður þó að þú eigir veiðistöng. Hérna áður fyrr var þetta meira hluti af rútínunni. Menn voru aldir upp við þetta að fara með feðrum sínum til Íslands að veiða. Þetta var í ákveðnum kreðsum lífsstíll. Núna erum við að sjá miklu meira af mjög góðum veiðimönnum koma til Íslands. Og það er annað sem ég hef tekið eftir. Við eigum orðið svo mikið af ungum strákum hér á Íslandi sem eru flinkir veiðimenn og þá sérstaklega í silungnum. Það hefur orðið alger bylting þar.“

María tekur undir þetta en segir að á sama tíma hafi veiði hjá konum aukist mjög mikið. „Það hefur orðið mjög mikil fjölgun í þeirra hópi. Það er mikil aukning milli ára og hefur verið þannig í nokkur ár.“

Hér heima slást menn við að rjúfa 100 sentímetra múrinn. …
Hér heima slást menn við að rjúfa 100 sentímetra múrinn. Þessi seglfiskur rauf 200 sentímetra múrinn. Ljósmynd/Einkasafn

Óli grípur þennan bolta á lofti. „Það er einkum tveir pólar í þessu. Og það má rekja til áranna fyrir hrun og eftir hrun. Fyrst velmegunarárin miklu. Bankar og stofnanir buðu alls konar fólki í laxveiði. Þarna varð til mikið af veiðimönnum. Ég þekki mýmörg dæmi um fólk sem aldrei hafði farið í veiði en var svo boðið í bestu laxveiðiárnar á besta tíma og veiddi vel. Þarna fengu margir bakteríuna. Og svo eftir hrunið var fólk síður að fara til útlanda eða endurnýja bílinn. Fjölskyldan var meira saman og fór að ferðast um landið og fjölskyldur fóru saman að veiða. Þarna bættist einnig mjög í hóp veiðimanna.“

Mikil samkeppni við aðra afþreyingu

Þegar við horfum til útlendinganna sem hreinlega bera uppi ákveðnar ár og greiða háar fjárhæðir fyrir besta tímann. Erum við að fara að keyra á einhvern vegg í þessum málum? Er þetta það mikil fækkun í þessum hópi að þínu mati?

„Ég gæti ímyndað mér að þetta fari að verða erfitt því að þó að við viljum meina að laxveiði á Íslandi sé betri en víðast hvar annars staðar í heiminum, þá erum við að keppa við svo margt annað. Annars konar afþreyingu í fyrsta lagi og svo ekki síður marga aðra veiðimöguleika. Lífið er ekki bara lax og silungur. Ekki lengur.“

Með Peacock Bass. Þau eru bæði að safna tegundum og …
Með Peacock Bass. Þau eru bæði að safna tegundum og gengur vel miðað við þessar myndir. Ljósmynd/Einkasafn
Nú þegar sumarið er að klárast. Er einhver fluga, María, sem stendur upp úr hjá þér með tilliti til sölu í búðinni?

„Uppáhaldsflugan mín. Það er Munro Killer. Ég hef alveg tekið sérstaklega eftir því í sumar. Fólk kemur gjarnan og hafði heyrt af einhverjum sem var að veiða stóran fisk á Munro Killer og vill fá slíka flugu. Það er mjög algengt ef stór fiskur hefur veiðst á einhverja ákveðna flugu að þá selst hún vel á eftir í búðinni hjá okkur. Ég er búin að selja vel af Munro Killer í allt sumar og flestir eru að taka stærð fjórtán og minna.“

Óli?

„Það er eiginlega tvennt sem stendur upp úr hjá okkur sölulega. Það eru kúluhausa þríkrækjurnar, Frances, Black and Blue og Green butt og fleiri, fyrir laxinn og svo eru það flugurnar hans Marek Imierski fyrir urriðann á Þingvöllum, sérstaklega í vor og ekki síður nú fyrir sjóbirtinginn.“

María með Giant Trevally. Þetta eru miklar skepnur og erfitt …
María með Giant Trevally. Þetta eru miklar skepnur og erfitt að eiga við þá. Ljósmynd/Einkasafn

Tveir mánuðir í fyrsta túr

Nú er sumarið að renna sitt skeið. Hvað gerið þið þá til að svala ykkar veiðiþörf?

„Nú er veiðitímabilið okkar að byrja,“ segir Óli. Þau rétta bæði úr sér og það er ljóst að tilhlökkunin er mikil.

„Það eru ekki nema rétt tæpir tveir mánuðir í fyrsta túr. Þegar þú ert að skafa bílrúðuna að morgni þá verðum við í 25 gráðum með sólina í hvirflinum og erum að kasta fyrir þrjátíu til fimmtíu punda fiska. Maður er að byrja að skjálfa og titra af tilhlökkun.“

Hvar er þetta?

„Við erum búin að bóka tvo túra núna í vetur og erum að leggja drög að þeim þriðja. Í nóvember förum til Christmas Island, Jólaeyju. Við höfum farið þangað nokkrum sinnum áður. Þetta er einstakur staður í miðju Kyrrahafinu alveg hinum megin á hnettinum. Ef þú ferð pínulítið lengra þá ertu í raun og veru á leiðinni heim. Svo er annar túr bókaður í mars. Þá förum við til Seychelles-eyja á lítið sker sem heitir Farquhar-eyja. Þetta eru kóralsker og þarna erum við að veiða í heitum sjó.  Þriðji túrinn er enn á teikniborðinu.“

Þau fara alltaf einn túr á Íslandi, í Vatnsdalsá. Hér …
Þau fara alltaf einn túr á Íslandi, í Vatnsdalsá. Hér er María með fallegan tveggja á lax úr Áveituhyl. Ljósmynd/Einkasafn
Ef þið berið þetta saman við Ísland – kostnað, gæði og allt það. Er þetta betra en besti laxveiðitúr hér?

„Ef við horfum á til dæmis á Christmas Island. Þú ert að fá mikið fyrir peninginn.  Þú ert að kaupa heila viku á sama verði og tveir dagar kosta hér heima í tiltölulega ódýrri laxveiðiá.   Auðvitað er ferðakostnaður til viðbótar en þetta er samt miklu ódýrara,“ segir María.

„Orðinn helsýktur“

„Við ákváðum fyrir nokkrum árum að einbeita okkur að búðargólfinu á sumrin og vera með viðskiptavinum okkar. Ferðast svo um heiminn á veturna og skoða aðra fleti á veiði og safna fleiri fiskategundum í minnið.  Fyrst fannst mér ægilega erfitt að bera þetta saman. Hvort ég tæki lax- eða silungsveiði fram yfir „saltwater“ eða öfugt. Þetta eru alveg gerólíkir heimar. Ef ég er spurður í dag hvort ég velji fyrst þá er svarið „saltwater“ allan daginn.“

Já!

„Það bara er einhvern veginn þannig. Ég er orðinn svo helsýktur af þessu að ég er alveg sáttur við að fórna veiðinni hér heima til þess að geta sinnt okkar viðskiptavinum á sumrin og ná svo úr mér hrollinum á veturna.“

Ertu sammála þessu, María? „Saltwater“ allan daginn?

„Já. Þetta er svo hrikalega spennandi,“ svarar hún á innsoginu.

Hvað er svona hrikalega spennandi?

„Þú bara sérð fiskinn fyrir framan þig. Þú ert að vaða og þarna er fiskurinn og svo þarft þú að ná að kasta fyrir framan hann og strippa rétt inn þannig að hann taki fluguna. Þú getur fylgst með hverri hreyfingu hjá fiskinum og þarft að taka tillit til hvernig vindurinn er og aldan. Það er svo margt sem þarf að hugsa um og þetta er virkilega krefjandi.“

Þau eru ekkert að ýkja. Ljóma eins og krakkar sem eru að tala um jólapakkana. Upp um alla veggi í búðinni eru myndir af þeim með stóra og framandi fiska. Myndirnar eru allar svo litríkar og það er svo mikil sól í þeim. Þetta minnir mig á að ég þarf að kaupa nýja sköfu í bílinn.

„Við erum að safna tegundum. Og þeir eru mjög ólíkir þessir fiskar. Það er sitthvað að berjast við fimmtíu punda Giant Trevally eða fjögurra punda Bonefish, nú eða tíu punda Trigger fish. Þetta eru mjög ólíkir fiskar og ólíkar aðferðir. En það sem gildir um alla þessa veiði er að þú ert að sjónkasta. Ert að kasta á fisk sem þú sérð. Vaðandi í mið læri og jafnvel upp í mjaðmir í sjónum að leita að fiskum. Svo þegar maður sér bráðina þá grípur maður þá stöng sem þú ert með uppsetta og klára fyrir þá tegund. Yfirleitt gengur maður með Giant Trevally-stöngina í hendi og er með aðra klára í belti. Maður fær nefnilega ekki marga sénsa á Trevally. Svo kannski er allt í einu Trigger fiskur að bryðja kórala fyrir framan þig og maður sér sporðinn standa aðeins upp úr. Þá hefur maður lítinn glugga. Skiptir um stöng og ef kastið er of nálægt honum fælist hann. Ef þú kastar of langt þá ertu lentur í kóröllum og allt fast og þú búinn að eyðileggja sénsinn.“

Uppáhaldsfiskarnir - Trigger og Trevally

Þau eru bæði sammála um að þetta sé allt annar leikur en ferskvatnsveiðin hér heima og þau taka fram að þau séu ekki að gera lítið úr henni. Þvert á móti. Þau hafa veitt saman í áratugi og búin að gera þetta allt og prófa allt í þessu hér heima.

„Þess vegna erum við líka tilbúin í ný ævintýri.“

Þau rifja upp merkisfiska í sjóveiðinni. María veiddi í fyrra Trigger fish á Christmas Island – Jólaeyju. Hún var með gamalreyndum leiðsögumanni sem heitir Tyron. Hann hefur verið leiðsögumaður í þrjátíu ár á þessum stað og fiskurinn sem María landaði var sá stærsti sem hann hafði nokkurn tíma séð. „Þetta var fimmtán til tuttugu punda fiskur. Þetta eru erfiðir fiskar og þetta var mikið ævintýri.“

En þinn Óli – uppáhalds?

„Það er Giant Trevally. Þetta eru svo stórir og magnaðir fiskar. Minn stærsti af þeirri tegund tók út tæplega þrjú hundruð metra af línu á tíu sekúndum. Þeir kalla þetta „freight train fish“ eða hraðlestina upp á íslensku. Þetta var ótrúlegt og það voru bara örfáir vafningar eftir þegar ég náði að stöðva hann. Hjartað var líka á útopnu. Leiðsögumaðurinn var búinn að láta mig herða bremsuna í botn. Ég var í hálftíma að slást við þennan mikla fisk áður en ég náði honum. Það er líka gríðarlega spennandi að sjá 100 punda seglfiska, á þriðja metra langa hreinsa sig tignarlega alveg upp úr sjónum með flugu í kjaftvikinu og heyra öskrið í fluguhjólinu og brestina í stönginni.“

Dagurinn þarna gengur þannig fyrir sig að það er ræs snemma morguns. Borðaður staðgóður morgunverður og svo er farið með báti út á kóralsker eða flöt. Þar eru veiðimenn skildir eftir með leiðsögumanni og sjórinn er í læri eða dýpri. Síðar kemur báturinn og skutlar þeim á nýjan stað og nesti er borðað í bátnum. Um klukkan fimm er náð í veiðimenn og siglt í land. Þá er þreytan farin að segja verulega til sín. Bara það að vaða allan daginn er mjög erfitt. „Svo er kvöldmatur og fljótlega eftir það - game over,“ segir Óli og það er líka hjá okkur.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert